kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Predikun á nýársdag 2014 · Heim · Kyndilmessa »

Bóas Gunnarsson

Kristján Valur @ 18.58 24/5/15

Bóas Gunnarsson var borinn til grafar hinn 22.maí árið 2015. Hér eru minningarorðin bæði vegna þeirra sem vildu gjarnan lesa þau og einnig og sérstaklega vegna þeirra sem heyrðu ekki hvað ég sagði.

Bóas Gunnarsson 1932- 2015
Minningarorð í Reykjahlíðarkirkju 22. maí 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Vorið lætur bíða eftir sér. Þó að morgunninn fari snemma á fætur og alltaf fyrr og fyrr gengur náttúrunni seint að vakna. Aðeins fáein grös og runnar eru farnir að rumska.

Þetta er alveg eins og hefðbundinn morgunn í Stuðlum.

Þau sem eru í nánum tengslum við náttúruna og líf hennar skynja vel sérleika vorsins einmitt í því samhengi sem við komum saman hér í dag, á mótum lífs og dauða. Það sem til er sáð verður uppskorið. Lífið heldur reikningsskil.

Það sem deyja þarf svo nýtt líf verði til það deyr. Frjókornið lifnar hjá visnaðri grein.

Við erum ekki vön að vera með á vörunum margbrotnar yfirlýsingar um lífið, hvernig það kemur og hvernig það fer, eða hvers við væntum þegar lífsdagur er liðinn. Nema kannski að við viljum frið og hvíld og frelsi frá áhyggjum og þrautum. Nákvæmar lýsingar á því hvers við væntum á himnum höfum við ekki á reiðum höndum þó að við myndum vilja fara þangað nema helst að hitta þau sem fóru á undan.

Heilög ritning spannar í senn hið hefðbundna og óvænta.
Ritað er í fyrstu bók Biblíunnar:

Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns,
þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar,
því að af henni ert þú tekinn.
Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa
! (1Móse 3.19)

Og í hinni síðustu bók Biblíunnar er ritað:
Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.
Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. (Opb.21.4)

Maðurinn er mold og heyrir jörðinni til og hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í moldina. Það er andi fæddur af anda Guðs og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn og hin jarðneska tjaldbúð fellur til jarðar.

Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann, segir Predikarinn. (Pred.12.7) Og hann segir einnig: Öllu er afmörkuð stund. (Pred.3.1)

Dag nokkurn er runnið upp endadægur. Moldin kallar og himnalúðurinn gellur.

Kristin hugsun og játning segir: Guð sendi son sinn Jesú Krist í heiminn vegna barna sinna í heiminum, vegna dauðans sem er í heiminum og vegna lífsins sem er sterkara en dauðinn.

Við berum þau sem deyja inn í kirkjuna fram fyrir auglit Guðs á leiðinni til grafarinnar. Dauðinn er áfangi á leiðinni heim til Guðs. Dauðinn er áfangi lífsins.Upprisa Jesú Krists frá dauðum boðar okkur það. Dauðinn er alltaf óvinur. Og samt er ekkert eðlilegra lífinu en að það deyi.

Vilji Guðs er ótvíræður. Veldu lífið, segir hann, veldu lífið og blessunina.

Ég er upprisan og lífið, segir Jesús Kristur. Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. (Jóhs.11.25.)

Jesús glímir við dauðann og hefur sigur. Við leggjum þau sem deyja í faðm hans og hann gefur þeim líf með sér. Hann rís upp og grípur okkur með sér eins og björgunarbátur við sökkvandi skip.
Sjómaður sem felur sig Guði á vald veit að hann mun annað hvort bjarga bátnum til hafnar á jörðu eða himni. Annað hvort sefur Jesús í bátnum og lægir öldurnar eða kemur gangandi á vatninu og grípur í hönd þess sem sekkur. Og í því efni er enginn munur á því að vera á úthafinu eða hérna á vatninu.

Góð systkin. Ég hef beint til ykkar þessum orðum er við komum saman til að minnast og heiðra minningu látins vinar og bróður, föður og afa og langafa.

Bóas Gunnarsson sem hér er kvaddur var fæddur í Bakkagerði við Reyðarfjörð þann 15. desember 1932. Foreldrar hans voru Gunnar Bóasson frá Stuðlum í Reyðarfirði og Margrét Stefanía Friðriksdóttir frá Mýrum í Skriðdal.

Gunnar lést árið 1945 og Margrét 1975. Bóas var þriðji yngstur níu alsystkina og tíu hálfsystkina. Hálfsystkin hans eru Sigurbjörg, Jón, Lára, Sólborg, Ásgeir, Anna, Hjalti, Páll, og Páll yngri, og Ingvar.

Alsystkin Bóasar eru: Una Sigríður f. 1924, Sigrún f.1926, d 2005, Aðalheiður f. 1927, Friðrik f.1929, d. 1938, Reynir f.1931, d 2010, Fjóla f.1935, Ragnhildur Sigfríð f.1937 og Sólveig f. 1944.

Ég ber ykkur kveðju Unu Sigríðar sem treysti sér ekki í langt ferðalag, en hugsar hlýtt til ykkar og bróður síns og sömuleiðis frá Aðalheiði systur hans á Akureyri.

Bóas ólst upp á Reyðarfirði á umbrotatímum. Margar sögur eru sagðar af honum ungum á heimaslóðum. Sumar þeirra eru með miklum ævintýrablæ og eru þó sannar.

Það eru auðvitað líka til sögur frá öðrum æviskeiðum hans, ekki síður áhrifamiklar. Það er nokkuð víst að í dag er hér samankominn mikill sjóður þeirra sagna og minninga með ykkur sem nú komið saman til að heiðra minningu hans.
Það má segja að um Bóas hafi gilt það sem orðað er þannig að hann vílaði ekkert fyrir sér. Og hann var hvorki ráðþæginn né reglum bundinn.
Um það tímabil ævi hans þegar heimstyrjöld geisaði og setti mark sitt á Reyðarfjörð mætti til dæmis skrifa bók. Á stríðsárunum voru á Reyðarfirði allt að 4000 hermenn breskir, kanadískir, norskir og bandarískir. En Reyðfirðingar voru ekki nema 300.

Þýskar flugvélar lögðu oft leið sína inn í Reyðarfjörð í njósnaferðum. Þá fóru loftvarnarflautur af stað og rauð hættuflögg voru dregin að húni um leið og byssur setuliðsins byrjuðu að gelta að óboðnum gestum og Reyðfirðingar þustu í loftvarnarbyrgin sem voru víða í þorpinu. Nema náttúrulega Bóas og félagar.
Bóas var að sjálfsögðu virkur þátttakandi í þessu öllu. Reyndar svo virkur að hann var sendur átta ára gamall í sveit að Útnyrðingsstöðum til að forða honum frá slagtogi við hermennina og stríðsátökin og var þar næstu sex sumur.

Gunnar faðir hans veiktist snemma árs 1945 og var fluttur suður og lést um sumarið. Þá voru fimm systkinanna innan við fermingu og yngsta barnið eins árs. Vorið eftir tók Bóas fullnaðarpróf úr barnaskóla. Á Reyðarfirði tók við unglingaskóli eftir fullnaðarpróf og Bóas hóf þar nám um haustið. En viðdvöl hans varð ekki löng. Hann fékk það ritgerðarverkefni að skrifa mannlýsingu og tók þá óheppilegu ákvörðun að skrifa um kennarann. Það hefði verið forvitnilegt að lesa þessa ritgerð því Bóas var rekinn umsvifalaust. En hann fékk hana ekki til baka.
Hann fór heim og sagði móður sinni frá og tveim dögum síðar var hann farinn til sjós á bát sem gerður var út frá Breiðdalsvík. Þetta var árið 1946. Bóas var fjórtán ára. Það var ekki óvanalegt að piltar færu á sjóinn 15-16 ára en tæpast svo ungir.
Um sumarið var hann á Stuðlafossi hjá Hjalta bróður sínum og eftir það á Snæfugli SU 20, sem varð eiginlega hans annað heimili allt til ársins 1963.
Haustið 1950 ákvað hann ásamt félaga sínum Unnsteini að fara til náms að Laugum. Hann var nemandi við Héraðsskólann að Laugum tvo vetur 1950-1952. Dvöl hans á Laugum var örlagarík fyrir marga. Þann 30. desember 1952 kvæntist hann skólasystur sinni frá Laugum, Kristínu Sigfúsdóttur frá Vogum. Það var bæði falleg og ábyrg ákvörðun þar sem frumburður þeirra hafði fæðst mánuði fyrr.

Þau Nína áttu heimili í Vogum hjá foreldrum hennar Sigfúsi og Sólveigu þar til þau fluttu fyrir jólin 1959 í nýbyggt eigið hús sem þau nefndu Stuðla.
Nína og Bóas eiga níu börn.

Elst er Margrét, gift þeim sem hér stendur, synir þeirra eru Bóas og Benedikt. Hinrik Árni er kvæntur Guðbjörgu Ásdísi Ingólfsdóttur, börn þeirra eru Brynja Björk, Benedikt Bóas og Benjamín Björn, Gunnar er kvæntur Friðriku Guðjónsdóttur, börn þeirra eru Jóna Kristín, Kolbrún Ada, Dóra Hrund og Bóas, Sólveig Anna er gift Baldri Tuma Baldurssyni, börn þeirra eru Nína og Kolbeinn Tumi, Ólöf Valgerður er gift Helga Bjarnasyni, dóttir hennar er Andrea Bóel, Sigfús Haraldur er kvæntur Þóru Fríði Björnsdóttur, börn þeirra eru Ásdís Inga, Ingólfur, Gunnar og Arna Kristín, Bóas Börkur er kvæntur Eyju Elísabet Einarsdóttur, sonur hans er Júlíus Gunnar, og synir þeirra Bjarki og Elías, Ragnheiður er gift Guðmundi Inga Gústavssyni, börn hennar eru Arnaldur og Árný Eir, Birgitta er gift Hentzíu í Lágabö. Barnabörnin eru 21 og barnabarnabörnin 15.

Það eru ekki allir hér í dag sem vildu. Hér eru fluttar kveðjur frá Benjamín Birni Hinrikssyni sem er bundinn yfir námi og frá Gunnari Sigfússyni sem er í Bandaríkjunum, frá foreldrum Friðriku, Guðjóni og Þórveigu og foreldrum Eyju Elisabetar, Ásgerði og Einari. Og Gunna og Jói hefðu svo gjarnan viljað vera hér, en biðja fyrir kveðjur til ykkar.

Haustið 1952 fór Bóas í Vélskóla Íslands á Akureyri og var þar veturinn 1952-1953 og aflaði sér mótoristaréttinda. Fimm árum síðar bætti hann við sig stýrimannsréttindum í Stýrimannaskólanum á Akureyri.
Hann gegndi mörgum störfum til sjós sem öll nýttust honum vel þótt hann færi í land. Hann var bæði vélstjóri og stýrimaður, háseti og kokkur.

Bóas fékk frí á síldarvertíðinni sumarið 1959. Hann var heima til að byggja Stuðla. Hellan var steypt 12. júní og flutt var inn í húsið 20. des. Það er óhætt að segja að þar var vel að verki staðið og ekki slegið slöku við. Svo fór hann aftur til sjós.

Hinn 30 júlí 1963 sökk Snæfuglinn á heimleið með fullfermi af síld í vonskuveðri á nokkrum mínútum. Bóas fór síðastur frá borði og ýtti skipstjóranum á undan sér. Ég játa það fyrir ykkur að ég var ekki viss um hvort ég ætti að nefna það, en það var þannig, annars hefði skiptstjórinn farið með bátnum niður, og þetta segir sína sögu um það hver Bóas var.
Skipverjar komust blessunarlega allir í gúmbát og var bjargað innan skamms.
Segja má að þetta hafi verið endirinn á samfelldum sjómennskuferli Bóasar, þótt hann færi túra eftir þetta. Hann hélt heim í Stuðla. Túrana notaði hann alltaf vel til að draga björg í bú, hvort sem það var sófasett eða þvottavél, eða ýmislegt matarkyns.

Þegar hér var komið sögu þá voru Voga- og Reykjahlíðarbændur búnir að ákveða að kaupa tól og tæki til Léttsteypunnar frá Akureyri. Bóas fór til Akureyrar, lærði á tækin, tók þau niður og setti þau upp í Bjarnarflagi í rústum gömlu brennisteinsverksmiðjunnar og svo varð hann verkstjóri Léttsteypunnar sem var starfsvettvangur hans þar til hann hóf störf hjá Kísiliðjunni árið1966 þar sem hann starfaði meira en þrjá áratugi eða allt til starfsloka 1999.
Í Kísiliðjunni var Bóas verkstjóri í dælingu gúrs úr vatni og gúrs úr þró. Svo virðist í minningunni að bilanir hafi verið harðla tíðar eða truflanir ýmiskonar í starfseminni. Bóas var alltaf þar, nætur og daga, vakinn og sofinn. Og ef ekki, þá ræstur út.

Þegar dæling úr vatninu hófst að vori var í mörg horn að líta og Bóas leit í þau öll. Hann hafði ekki mörg orð um það eða önnur verkefni sín á vettvangi.
Skyldi eitthvað vera til sem gerir ótæpilega langan vinnudag bærilegan annað en það að vinnan sé lífið sjálft? Já.

Þegar Bóas mundi eftir því að líta upp frá verki, sem var sjaldan, þá kom í ljós að hann hafði næmt fegurðarskyn. Það þarf nú reyndar líka mikið sjónleysi til að taka ekki eftir fegurðinni hér við vatnið, ekki síst á vaknandi vori.

Bóas kom oft svo seint heim úr vinnunni að meira að segja lóan var sofnuð.

Hér syngur Benedikt einn: (Ljóð Þorsteinn Erlingsson, lag Sigfús Einarsson)

Sofnar lóa er löng og mjó,
ljós á flóa deyja.
Verður ró um víðan sjó
vötn og skógar þegja.

Eitt af Stuðlasystkinunum sagði: Margt má nú segja fallegt um pabba minn í ræðu en mér dettur helst í hug hvað hann var bóngóður, ráðsnjall og hjartahlýr. Þó hann væri kanski ekki maður margra orða, þá lét hann verkin tala meðan heilsa og geta leyfði.

Bóas hafði marga, á sínum tíma óvenjulega, eðliskosti. Hann var til dæmis vel liðtækur í eldhúsinu og hafði bæði mikið og göfugt embætti við hátíðarmatinn á aðfangadagskvöld, nefnilega að steikja rjúpurnar og brúna kartöflurnar. Fátt af því sem hann gerði var óvenjulegt enda um hefðbundinn mat að ræða. Þó var nokkuð sérstakt þegar hann brytjaði saltkjötsafgangana út í bráðið smjörið á pönnunni og stráði svo sykri yfir.

Og þegar þurfti þvoði hann gólf og ryksugaði og hann þvoði upp og svo stoppaði hann gríðarlega vel í sokka.

Bóas tók því meira en dauflega þegar honum var sagt (áheyrandinn taki eftir þessu) að hann ætti að leiða elstu dóttur sína upp að þessu altari. - Ég geri það ekki neitt, sagði hann, - ég fer ekki að athenda það sem ég hef ekki verið beðinn um!
En þegar honum hafði verið sagt að þetta snérist nú reyndar ekki um afhendingu eignar, heldur góðfúslega fylgd, (á örlagastundu) þá féllst hann á það. Og sjaldan hefur nokkur svaramaður stigið ölduna jafn hraustlega og hann á leiðinni hér inn kirkjugólfið.

Um Bóas gilti alltaf setningin: Hann tók til hendinni. Það gilti um öll hans störf. Til dæmis hygg ég að fáir menn hafi þurrkað eins fast af eldhúsbekknum eins og hann. Ég segi nú ekki að hann hafi svignað, en það sá á honum.

Bóas var umhyggjusamur faðir og hjálpsamur. Í því samhengi má sérstaklega nefna í hversu ríkum mæli fjölskyldan í Pálmholti naut góðs af vinnusemi hans þegar hún rak þar svínabú. Hann fór þangað í vetrarfríum frá árinu 1995 og var oft með hléum allt til vors.
Eftir að hann hætti störfum í Kísiliðjunni 1999 var hann meira og minna í Pálmholti þangað til hann flutti á Hvamm. Það var fjölskyldunni mjög dýrmætur tími og ekki síður honum sjálfum. Hann var ekki fyrir iðjuleysi.

Bestu hliðar Bóasar voru iðjusemi, nægjusemi, framkvæmdasemi og útsjónasemi. Hann hlífði sér aldrei og vann allt það sjálfur sem hann gat. Þannig var hann góð fyrirmynd barna sinna og samstarfsmanna. Hann stundaði það sem nú er kallað þjónandi forusta löngu áður en það hugtak var fundið upp.
Sem verkstjóri var hann jafnframt félagi og gat verið umhyggjusamur og hornóttur í senn, elskulegur undir hrjúfu yfirborði. Sumir sögðu hann dálítið hrekkjóttan. En aðalsmerki hans var að það var ekki líklegt að hann héldi sér til hlés þegar mikið lá við.

Á hinn bóginn var hann líka ósérhlífinn í vondri mynd þess orðs, því að hann misbauð líkama sínum bæði með vinnu og með því sem hann lét ofan í sig. Ekki var alltaf auðséð hvað var orsök og hvað var afleiðing.

Hann var einstaklega barngóður og góður faðir barna sinna. Fljótlega eftir að fjölskyldan flutti í Stuðla gerði hann leikvöll með leiktækjum við húsið svo að sívaxandi fjöldi barnanna á bænum gætu dundað sér þar við ásamt nágrannabörnunum. Leikvellir af þeirri gerð voru þá fátíðir og ekki bara í Mývatnssveit. Og allavega rólan er þar enn.
Og þegar hitaveitan var komin byggði hann sundlaug við húsið sem notuð var til sundkennslu nokkur ár og þegar búið var að byggja alvöru sundlaug í þorpinu breytti hann Stuðlasundlauginni í gróðurhús. Fjölskyldunni og öllum mögulegum öðrum til ánægju og saðningar.
Hann var einstaklega natinn við börn, barnabörnin sem og önnur börn gestkomandi. Og þeim þótti mjög vænt um hann. Hann hafði þá sérstöðu meðal margra fullorðinna að hann umgekkst bæði börn og unglinga meira eins og jafningja. Hann sá alltaf í börnunum fólk sem er á leiðinni að verða fullorðið fólk. Hann hafði þann skilning að maður er einfaldlega ekki of ungur til að gera eitthvað þegar maður ræður við að gera það. Þetta traust sem hann þannig sýndi mörgum, einnig hér inni, er ómetanleg eign.

Auðvitað var hann á sjómennskuárunum afskaplega lítið heima. Til dæmis var það þannig árið 1960, það er árið sem tvíburarnir fæddust, að þá stoppaði hann heima samtals í tvo mánuði. Ekki samfellt, heldur í þremur heimsóknum. Þá og alltaf, en ekki síst þá var gott að börnin áttu góða móður sem sá um alla hluti, vakin og sofin í öllum greinum. Það má líka skrifa bók um það.

Eftir að Bóas fór að vinna hér í sveit samfellt var hann liðtækur í málefnum sinnar sveitar og sinna nágranna. Til dæmis sat hann í sveitarstjórn tvö kjörtímabil 1968 – 1972 og hann var liðtækur við uppbyggingu og viðhald hitaveitunnar. Svo vann hann mikilvægt starf með björgunarsveitinni Stefáni. Bóas var nokkuð glúrinn að finna týnda ferðamenn í óbyggðum þegar þeir höfðu villst og stefndu til fjalla, og er líklega sá eini sem hefur líka fundið hænu svo langt frá byggð, enda fékk hún aðra meðhöndlun en aðrir ferðalangar.

Síðasta hluta ævi sinnar dvaldi hann á Hvammi á Húsavík. Hann fór ekki glaður þangað. Það þarf ekkert að orða það öðruvísi. En hann sætti sig við orðinn hlut, eins og hann reyndi alltaf, alla ævi sína, að una glaður við sitt. Hann var vandi sig á það. Það var sannarlega ekki skemmtilegt á yngri árum að vera langdvölum í burtu með húsið fullt af börnum.
En nú að leiðarlokum er hugurinn fyrst og fremst fullur af þakklæti. Þakklæti til Bóasar sjálfs sem samferðamanns og til þeirra sem gáfu honum svo mikið sérstaklega á þessu síðasta skeiði, bæði meðal starfsfólks á Hvammi og meðal ykkar ástvinanna. Það er ekki mitt hlutverk að nefna nöfn, enda eins víst að einhverjir gleymdust þá. En Guð blessi þjónustu ykkar og kærleika.
Far þú í friði, Bóas Gunnarsson.
Friður Guðs þig blessi
og hafðu þökk fyrir allt og allt.

En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen

url: http://kvi.annall.is/2015-05-24/boas-gunnarsson/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli