Fyrsta árið hjá ejr
Pétur Björgvin @ 07.33 13/4/14
Í byrjun apríl 2013 hóf ég störf á æskulýðsskrifstofu prófastsdæmis evangelísku kirkjunnar hér í Reutlingen, Suður-Þýskalandi. Starfsstöðin mín heitir á þýskri tungu Evangelisches Jugendwerk Bezirk Reutlingen og er skammstafað ejr. Nú þegar ég hef lokið fyrsta árinu mínu hér [þau gætu orðið fá eða mörg, aldrei að vita hvað mér dettur í hug, en ég er með ótímabundinn samning] finn ég þörf hjá sjálfum mér að segja örlítið frá starfinu sem ég sinni. Árið hefur verið ánægjulegt í alla staði, áskoranir í starfi hæfilega stórar og starfið veitt mér mörg tækifæri til að kynnast nýjum starfsaðferðum og alls konar fólki, langoftast frábæru fólki.Stjórn æskulýðsstarfsins
Á aðalfundi æskulýðsstarfsins sem fór fram fyrir nokkrum dögum var kosin ný stjórn [sjá mynd] sem mun leiða starfið næstu þrjú árin. Um sjötíu manns sóttu fundinn en fjöldi atkvæðabærra einstaklinga á aðalfundi fer eftir því hvernig starfið gengur í hverjum söfnuði fyrir sig. Á starfssvæði ejr er að finna um 30 söfnuði og getur æskulýðsstarfið í viðkomandi söfnuðum sent fulltrúa á fundinn. Fjöldi þeirra fer sem fyrr segir eftir því hversu margir einstaklingar taka þátt í æskulýðsstarfi viðkomandi sóknar - ekki hversu stór söfnuðurinn er. Ég kem nú nýr inn í þessa stjórn sem annar af tveimur fulltrúum æskulýðsfulltrúa ejr. Stjórnin fundar ellefu sinnum á ári [engir fundir í ágústmánuði] og tekur hver fundur kvöldstund, nema nóvemberfundurinn en hann er haldin frá föstudagskvöldi fram yfir hádegi á sunnudegi. Framkvæmdastjórn starfsins fundar auk þess um 12 til 15 sinnum á ári. Í framkvæmdastjórn sitja formaður, varaformaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri æskulýðsstarfsins Ralf Dörr. Katja Brändle var endurkjörin formaður [hana vantar á myndina hér fyrir ofan]. Stjórnin fer með öll mál sem snúa að æskulýðsstarfinu og starfar sjálfsstætt samkvæmt skipuriti og samningi við evangelísku kirkjuna. Um leið er starfið hluti af EJW - æskulýðsstarfi kirkjunnnar í Württemberg, sem aftur er hluti af KFUM og KFUK í Þýskalandi. Vert er þó að taka fram að hér á svæðinu starfar KFUM og KFUK líka undir eigin merkjum og á eigin forsendum. Fyrir stjórn ejr þýðir þetta að þrátt fyrir eigin - meint - sjálfstæði er margt sem þarf að bera undir stjórn eða aðalfund EJW og á sama hátt er starfið háð samþykktum og fjárframlögum frá prófastsdæminu. Allt starfsmannahald er líka í höndum skrifstofu prófasts sem ræður æskulýðsfulltrúa, ritara og annað starfsfólk á æskulýðsskrifstofuna að fengnum tillögum frá stjórn ejr.
Skrifstofan
Í augnablikinu starfa níu manns á skrifstofu ejr, sex æskulýðsfulltrúar (500% starfshlutföll), tveir ritarar og ein aðstoðarkona. Skráðir sjálfboðaliðar í starfinu eru rúmlega 300 talsins, þ.e. einstaklingar sem sjá um æskulýðsstarf í sóknum og/eða tilheyra sjálfboðaliðahópum sem sjá um einstaka starfsþætti ejr. Ralf Dörr er framkvæmdastjóri ejr og stýrir hann daglegu starfi skrifstofunnar og er næsti yfirmaður okkar allra á skrifstofunni. Eins og gefur að skilja er alltaf einhver hreyfing á starfsfólki í svona starfi og þannig mun einn starfsfélagi okkar kveðja í haust og halda til starfa erlendis. Þar með lýkur fimm ára átaksverkefni sem hann hefur sinnt þar sem að lögð hefur verið áhersla á tenginguna milli æskulýðsstarfsins og fermingarfræðslunnar. Verkefni hans náði hápunkti með góðri ráðstefnu um fermingarmálin sem ég benti á hér á annál. Staða æskulýðsprests prófastsdæmisins er laus til umsóknar þessa dagana og vonumst við til þess að einstaklingur finnist í þá stöðu og að hann/hún hefji störf hjá okkur í haust. Eins vonumst við til þess að 25% kennara sem tengiliðs fyrir verkefnið skóli og æskulýðsstarf hefji störf á skrifstofunni í haust, auk þess sem von er á erlendum sjálfboðaliða. Þannig gætum við orðið allt að tólf manns á skrifstofunni í haust. Sjáum til.
Starfsumhverfi ejr
Hér til hægri má sjá kort af prófastsdæminu. Ef við tækjum þetta kort og legðum það á kort af Íslandi þá myndi það passa inn í Eyjafjörðinn frá Akureyri út í Ólafsfjörð og vel upp í hlíðar fjallanna beggja vegna fjarðarins. Skráðir meðlimir í evangelísku kirkjuna í prófastsdæminu eru tæplega 80.000 talsins. 65 prestar starfa í prófastsdæminu.
Eitt af því sem gerir starfið hér í prófastsdæminu áhugavert, er að við erum annars vegar að sinna litlum söfnuðum sem starfa í dreifbýlinu og hins vegar stóru sóknunum sem hafa að hluta til stofnað sóknarsamlög. Stærst slíkra sóknarsamlaga er sóknarsamlag kirknanna í Reutlingen og rekur það sóknarsamlag eigin æskulýðsskrifstofu með sjö starfsmönnum (470% starfshlutföll) og sinna þau ýmsum þáttum æskulýðsstarfsins í borginni. Annað minna sóknarsamlag í Pfullingen styrkir KFUM og KFUK í Pfullingen duglega sem gerir þeim kleift að ráða til sín æskulýðsfulltrúa í fullt starf ásamt aðstoðarfólki. Þá er áhugavert að vita að sunnudagaskólastarfið er ekki hluti af æskulýðsstarfi kirkjunnar, heldur er starfandi sérstök eining í hverju prófastsdæmi fyrir sig sem styður við sunnudagaskólastarfið og rekur sunnudagaskólastarfið í Württemberg einnig eigin símenntunarmiðstöð í Beilstein í um 90 km fjarlægð frá Reutlingen.
Skrifstofa ejr er í Rommelsbach (efst á korti) en við sem fjölskylda búum í Ohmenhausen (fyrir miðju korti). Fyrstu vikurnar áður en við fengum íbúðina, bjó ég einn í þorpi sem heitir Kusterdingen og liggur í næsta prófastsdæmi.
Hlutverkin mín
Að þessu sinni vil ég gera örlitla grein fyrir því starfi sem ég sinni, greinargerð um starf ejr í heild sinni bíður betri tíma. Þriðjungi af tíma mínum ver ég í skóla sem ber nafnið Gerhart Hauptmann Schule og er skólinn staðsettur í íbúðahverfi nálægt miðborg Reutlingen. Um 500 nemendur sækja skólann. Þar kenni ég kristinfræði í fimmta, sjötta, sjöunda, níunda og tíunda bekk, auk þess sem ég sinni einu félagslegu verkefni með nokkrum nemendum í hvert sinn. Hér er lögð rík áhersla á sjálfboðið starf nemenda við eigin skóla og þykir skólum eftirsóknarvert að fá ýmiss félagasamtök til liðs við sig hvað það varðar. Þannig þjálfa ég í augnablikinu níu nemendur úr sjöunda bekk sem leikjastjórnendur. Þau taka svo að sér að stjórna leikjum fyrir nokkra nemendur úr yngstu bekkjum skólans í frímínútum.
Í átján sóknum eru starfandi lúðrasveitir. Hver sem hefur áhuga getur gerst meðlimur í lúðrasveit kirkjunnar sinnar, æft er einu sinni í viku, farið á æfingahelgar og margt til gamans gert. Stjórnendur þessara lúðrasveita eru margir hverjir í sjálfboðaliðastarfi eða fá greidda smá þóknun fyrir starf sitt. Hlutverk lúðrasveitanna er meðal annars að sjá um tónlistarflutning í nokkrum guðsþjónustum á hverju ári, sérstaklega þeim sem eru úti undir beru lofti. Þá er ekki óalgengt að sveitin taki alfarið að sér eina guðsþjónustu og sjá þá meðlimir sveitarinnar um alla liði guðsþjónustunnar og presturinn því í fríi þann dag. Í nokkur ár hefur verið sérstök áhersla á nýliðun í sveitirnar og horft til unga fólksins. Samkvæmt skipuriti kirkjunnar tilheyrir lúðrasveitastarfið æskulýðsstarfi kirkjunnar þó svo að margir sem þeyti lúðrana séu komnir vel á sjötugsaldurinn. Hér er eitt af mínum hlutverkum, ég sé um skipulagningu ýmissa viðburða og námskeiða fyrir lúðrasveitirnar og þá sérstaklega hvað nýliðun varðar. Mér til halds og trausts hef ég sérstaka nefnd fólks sem starfar á þessum vettvangi ásamt kosnum formanni lúðrasveitastarfsins, en hann hefur meðal annars það hlutverk að samræma starf lúðrasveitanna og stjórnar tónlistarflutningi þeirra þegar margar sveitir koma saman til tónlistarflutnings. Til dæmis stöndum við fyrir jólalagablæstri á markaðstorginu í Reutlingen síðasta laugardag fyrir jól ár hvert.
Námskeið og ferðalög
Stór þáttur í starfi mínu er að sinna ýmsum námskeiðum og ferðalögum með unglingum, en markhópurinn sem mér er ætlað að starfa með eru 13 til 20 ára ungmenni. Stærsti viðburðurinn er helgarmót fermingarbarna, en þar tökum við á móti um 750 manns yfir eina helgi á ágætis stað sem heitir Dobelmühle. Þar rekur lítið, sjálfstætt félag ungmennabúðir (svona þýskur Vatnaskógur). Staðurinn er þó nokkrum Íslendingum vel kunnur þar sem nokkrir sjálfboðaliðar ÆSKR hafa verið þar í starfsþjálfun og Æskulýðskór Glerárkirkju ásamt Ástu Magnúsdóttur kórstjóra og foreldrum gisti þar í fjórar nætur fyrir nokkrum árum. Hvað þessar fermingarbúðir varðar þá er það hlutverk mitt að stýra þeim ásamt Ralf Dörr. Á hverju ári fer ég auk þess í nokkur ferðalög með minni hópa og eru þau ferðalög allt frá einni nóttu yfir í tíu, tólf daga ferðalög og vonast ég til þess að geta greint frá þeim hér á annál þegar fram líða stundir. Í öllu falli mun ég og fleiri gera góða grein fyrir stóra verkefni sumarsins: PEOPLE 4 PEOPLE er heiti ungmennaskiptaverkefnis sem ÆSKA undir forystu Sigríðar Rúnar Tryggvadóttur og Þorgeirs Arasonar tekur þátt í ásamt okkur í ejr og æskulýðsstarfi lúthersku kirkjunnar í Póllandi. Verkefnisstýran þaðan er einnig mörgum kunn heima á Fróni, því það er Marta Zachraj sem er evrópskur sjálfboðaliði í eitt ár í Glerárkirkju.
Stuðningur við starf í söfnuðum
Við sem störfum á æskulýðsskrifstofunni viljum ekki týnast í einhverjum fílabeinsturni sem hefur lítinn eða engan kontakt við safnaðarstarfið. Þess vegna hefur hvert okkar það hlutverk að sinna tímabundnum verkefnum úti í söfnuðunum. Þannig tók ég þátt í safnaðarstarfinu í Undingen, einu af litlu þorpunum í dreifbýlinu. Aðalstarf mitt þar var að taka þátt í fermingarfræðslunni og lauk þátttöku minni með fermingarathöfninni sjálfri nýverið. Í mínu tilfelli vorum við tveir með fermingarstarfið, ég og prestur safnaðarins, en sumt af mínu samstarfsfólki var að sinna fermingarstarfi í prestlausum söfnuðum þennan veturinn. Í því samhengi sáu æskulýðsfulltrúarnir (djáknarnir) að sjálfsögðu um ferminguna sjálfa.
Ótalin eru mörg smærri og stærri verkefni sem ég sinni. Til dæmis hef ég alfarið allt hvað varðar evrópskt sjálfboðaliðastarf á minni könnu, en við erum í senn sendi- og móttökusamtök fyrir evrópska sjálfboðaliða.