Að halda andlitinu
Pétur Björgvin @ 16.23 16/4/14
Dag einn fóru líkamshlutarnir í andlitinu að rífast. Augun hófu rifrildið. Þau kvörtuðu undan því að þurfa að sætta sig við það að vera staðsett í skugga augabrúnanna. Augun töldu að þar sem þau væru gluggar sálarinnar og það væri þeirra hlutverk að sjá það sem framundan er og gefa upp stefnuna væru þau mikilvægust og ættu því að vera efst.
Þá tók nefið til máls. Sami kvörtunartónn var í nefinu. Því þótti ekki sæma að vera staðsett svo neðarlega á andlitinu miðað við það lífsnauðsynlega hlutverk sitt að sjá um inn- og útöndun. Máli sínu til áréttingar benti nefið sérstaklega á að augabrúnirnar hefðu ekkert hlutverk.
Söngurinn í munninum var sá sami. Hann taldi sig mikilvægastan. Öll fæða þyrfti að fara í gegnum hann og einstaklingurinn hefði ekkert til málanna að leggja nema það færi út um munninn. Því væri algerlega ótækt að munnurinn væri neðstur á andlitinu. Hann heimtaði útbætur og það strax.
Eftir að hafa hlustað á þessar rökræður um stund tóku augabrúnirnar til máls. Þær sögðust tilbúnar til að færa sig og fóru þegar í stað neðst á andlitið. En þegar augun sáu útlit andlitsins í speglinum báðu þau augabrúnirnar að færa sig örlítið. Augabrúnirnar prófuðu að vera neðst, á milli munns og nefs, út á kinn og undir augunum. En sama hvað þær reyndu þá voru hinir líkamspartarnir sammála um að það gengi ekki.
Að lokum komust þau að sameiginlegri niðurstöðu. Augabrúnirnar yrðu að vera þar sem þær hefðu alltaf verið. Allar aðrar tilraunir leiddu aðeins til eins: Andlitið var ekki eins og á manneskju.
(Hsing Yun, æðsti yfirmaður húmanísku búddatrúarhreyfingarinnar „Buddha´s Light International Association“ sagði þessa sögu á þvertrúarlegri skátaráðstefnu sem haldin var á Taívan vorið 2006. Íslensk útgáfa textans áður birt í bók höfundar: „Samtal við framandi …“ sem kom út hjá Lífsmótun 2009.)