Kynjahalli í kirkjunni
Pétur Björgvin @ 16.32 12/5/14
Ég er karl. Sem karl hef ég oftar en mér er ljóst átt þátt í því að auka kynjahalla kirkjunnar. Eina sem ég hef stundum þurft að gera var að mæta á fund eða taka að mér hlutverk innan kirkjunnar og viti menn: Körlunum í viðkomandi samhengi fjölgaði og kynjahallinn jókst. Samt finnst mér alveg ágætt að vera karl og ég held að ég sé ágætis karl.
Ég er djákni. Sem slíkur er ég alltaf í minnihluta. Flestir vígðir þjónar kirkjunnar eru prestar. Við djáknarnir erum færri. Flestir vígðir djáknar eru kvenkyns. Sem djákni meðal djákna hef ég oft átt þátt í því að minnka kynjahalla kirkjunnar. Ef ég hef mætt á aðalfund djáknafélagsins þá fjölgaði körlunum stundum um 50% eða jafnvel 100%. Samt finnst mér alveg ágætt að vera djákni og ég held að sé ágætis djákni.
Hér skal viðurkennt að mér finnst stundum skrítið, jafnvel óþægilegt að upplifa sjálfan mig í þessu samhengi. Alveg sama hvort það er karl sem hluti af yfirdrifnum meirihluta eða karl sem hluti af týndum minnihluta. Og ég spyr mig hvort að við getum ekki gert eitthvað í sameiningu innan kirkjunnar til þess að leiðrétta kynjahallann. Frábær áskorun þess efnis var einmitt samþykkt nýverið á fundi prestvígðra kvenna (sjá frétt á kirkjan.is).
Stundum hjálpar að skoða landslagið. Árið 2014 mun fara í sögubækur kirkjunnar. Fjöldi presta og guðfræðinga sem tekur við nýju embætti árið 2014 er mun meiri en hingað til á einu ári á þessari öld. Hvort það verða 15 eða jafnvel 20 á eftir að koma í ljós. En nú þegar er ljóst að tíu embætti hafa þegar verið auglýst laus til umsóknar. Á kirkjan.is hafa nöfn umsækjenda í sex þessara embætta verið birt og því ljóst að 33 einstaklingar hafa áhuga á þessum embættum.
Myndin hér að ofan sýnir kynjahlutfall umsækjenda um hvert embætti fyrir sig. Athugið að sumir sækja um fleira en eitt embætti.
Sjá einnig: Prestar óskast - færsla frá 9. apríl hér á annál.
Pétur Björgvin @ 13/5/2014 10.44
Á næstu dögum ætti að koma í ljós hver fær hvaða embætti og svo verður áhugavert að sjá hverjir sækja um næstu fjögur embætti en þar rennur umsóknarfresturinn út sem hér segir:
30. maí Dómkirkjan
3. júní Dalvík
5. júní Grafarvogur
10. júní Glerárkirkja