Tvö - Eitt fyrir konunum
Pétur Björgvin @ 17.11 26/5/14
[Uppfært 2. júní]
Það er á engan hátt sanngjarnt gagnvart fólki að flokka það eftir breytunni karl vs kona. Við erum öll einstaklingar sem höfum margt að gefa og fullt af hæfileikum og okkur finnst kyn skipta mismiklu máli. Þegar hins vegar er horft á stærra samhengi fer kyn að skipta meira máli. Smátt og smátt höfum við heima á Fróni líkt og önnur samfélög í kringum okkur verið að komast upp úr karllægum heimi, á annað þrep ef svo má segja, þar sem að jafnrétti (ekki bara kynjanna) ætti að vera skrifað með stóru Joði. Þess vegna fylgist ég spenntur með umsóknum um prestsembætti heima á Fróni og því hver eru skipuð í þau embætti. Langflest umsækjenda er fólk sem ég þekki og tel mörg þeirra til vina minna.
Þessi færsla er ekki um persónurnar. Þau eru öll yndisleg. Um leið og ég samgleðst þeim sem eru skipuð í embættin, finn ég til með þeim sem fá þau ekki.
Þessi færsla er um kerfið, samhengið, strúktúrinn. En aðeins stóru myndina. Hvers vegna A en ekki B og C voru valin heima í héraði hefur aftur með samhengið þar að gera. Þau samhengi væru vel til þess fallin að skrifað væri um þau. En til þess er ég of langt í burtu, þekki ekki málavöxtu nægilega vel (eða bara ekkert).
Þetta er færsla um Þjóðkirkjuna. Kirkju sem þarf að taka sér tak. Kirkju sem er að taka á mörgum málum. Kirkju á uppleið.
Árið 2014 mun fara í sögubækur Þjóðkirkjunnar sem ár mannaskiptanna miklu í prestastétt. Árið sem loksins komst hreyfing á prestastéttina* eftir kyrrsetu í kjölfar kreppu. Árið sem tækifæri gafst til að fjölga konum í prestastétt og sér í lagi, konum í áhrifastöðum innan prestastéttarinnar í kjölfar þess að Þjóðkirkjan eignaðist sína tvo fyrstu kvenbiskupa.
Í dag (26/5) er staðan tvö - eitt fyrir konunum eins og eftirfarandi mynd sýnir. Búið er að tilkynna hvaða þrjú úr hópi umsækjenda fengu þrjár af lausu stöðunum. Einn karl, tvær konur. Ef aðeins er horft á áhrifastöðurnar (sóknarprestsstöðurnar) er staðan eitt - eitt.
Myndin sýnir einnig að breyting hefur orðið á fjölda umsækjenda um embættið á Skagaströnd vegna þess að ein umsækjenda hefur verið skipuð í annað embætti. Ég fylgist áfram með af spenningi. Finnst þetta áhugavert.
Viðbót 2. júní: Embættið í Seljakirkju hefur verið auglýst aftur, sbr. tilkynningu á vef Þjóðkirkjunnar.
Tenglar:
- Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir skipuð í Laugarnesprestakalli
- Séra Þorgeir Arason og Ólöf Margrét Snorradóttir skipuð á Egilsstöðum
Sjá einnig eldri færslur hér á annál:
- Kynjahalli í kirkjunni (færsla frá 12. maí 2014)
- Prestar óskast (færsla frá 9. apríl 2014)
* Milli embætta innanlands. Fjöldi presta hefur flust af landi brott. Hversu mörg þau eru og hvernig kynjaskiptingin er þar er efni í aðra færslu.
Pétur Björgvin @ 27/5/2014 15.45
Leyfi mér að benda á áhugaverða færslu um framtíðarsýn í starfsmannamálunum í kristilega geiranum sem Halldór Elías (Elli) birtir á bloggsíðu sinni.