Samtals 88 umsóknir frá 20 konum og 25 körlum
Pétur Björgvin @ 14.26 13/6/14
Þjóðkirkjan er rík. Fullt af hæfileikaríku fólki er tilbúið að takast á við þær áskoranir sem embætti prestsins hefur að geyma. Á síðustu mánuðum hafa 20 konur og 25 karlar skilað samtals 88 umsóknum um þau tíu embætti sem biskup Þjóðkirkjunnar hefur auglýst laus til umsóknar. Eitt embættið hefur verið auglýst aftur, einn karl og tvær konur hafa verið skipuð sem sóknarprestar, einn karl og ein kona hafa verið skipuð í embætti presta og fjögur embætti eru í augnablikinu í valnefndarferli. Myndin hér að neðan gefur yfirlit yfir stöðu mála - tölfræðilega séð.
Skiljanlega er áhugi umsækjenda á hinum fjölbreyttu embættum sem í boði eru, mismikill. Þannig sækja 34 af þessum 45 einstaklingum um eitt eða tvö embætti og 11 um 3 til 5 embætti. Enginn sækir um 6 embætti eða fleiri af þessum tíu. Í hópi umsækjenda eru 25 prestvígðir einstaklingar, þar af 9 konur.
Og eins og ég hef áður sagt um þessi skrif mín:
Það er á engan hátt sanngjarnt gagnvart fólki að flokka það eftir breytunni karl vs kona. Við erum öll einstaklingar sem höfum margt að gefa og fullt af hæfileikum og okkur finnst kyn skipta mismiklu máli. Þegar hins vegar er horft á stærra samhengi fer kyn að skipta meira máli. Smátt og smátt höfum við heima á Fróni líkt og önnur samfélög í kringum okkur verið að komast upp úr karllægum heimi, á annað þrep ef svo má segja, þar sem að jafnrétti (ekki bara kynjanna) ætti að vera skrifað með stóru Joði. Þess vegna fylgist ég spenntur með umsóknum um prestsembætti heima á Fróni og því hver eru skipuð í þau embætti. Langflest umsækjenda er fólk sem ég þekki og tel mörg þeirra til vina minna.
Þessi færsla er ekki um persónurnar. Þau eru öll yndisleg. Um leið og ég samgleðst þeim sem eru skipuð í embættin, finn ég til með þeim sem fá þau ekki.
Þessi færsla er um kerfið, samhengið, strúktúrinn. En aðeins stóru myndina. Hvers vegna A en ekki B og C voru valin heima í héraði hefur aftur með samhengið þar að gera. Þau samhengi væru vel til þess fallin að skrifað væri um þau. En til þess er ég of langt í burtu, þekki ekki málavöxtu nægilega vel (eða bara ekkert).
Þetta er færsla um Þjóðkirkjuna. Kirkju sem þarf að taka sér tak. Kirkju sem er að taka á mörgum málum. Kirkju á uppleið.
Árið 2014 mun fara í sögubækur Þjóðkirkjunnar sem ár mannaskiptanna miklu í prestastétt. Árið sem loksins komst hreyfing á prestastéttina eftir kyrrsetu í kjölfar kreppu (Milli embætta innanlands. Fjöldi presta hefur flust af landi brott. Hversu mörg þau eru og hvernig kynjaskiptingin er þar er efni í aðra færslu.). Árið sem tækifæri gafst til að fjölga konum í prestastétt og sér í lagi, konum í áhrifastöðum innan prestastéttarinnar í kjölfar þess að Þjóðkirkjan eignaðist sína tvo fyrstu kvenbiskupa.
Jafnréttisstefnu kirkjunnar má finna á vefsvæði Jafnréttisnefndar.
Yfirlit:
- Tvö sóttu um embætti sóknarprests á Egilsstöðum. Karlmaður fékk embættið. #
- Fjögur sóttu um embætti prests á Egilsstöðum. Kvenmaður fékk embættið. #
- Sjö sóttu um embætti sóknarprests í Laugarneskirkju. Kvenmaður fékk embættið. #
- Nítján sóttu um embætti prests í Háteigskirkju. Karlmaður fékk embættið. #
- Fjögur sóttu um embætti sóknarprests á Skagaströnd. Kvenmaður fékk embættið. #
- Sjö sóttu um embætti sóknarprests í Seljakirkju. Biskup ákvað að embættið yrði auglýst að nýju. # #
- Tíu sækja um embætti prests í Dómkirkjunni. Ekki er búið að veita embættið. #
- Sjö sóttu um embætti prests í Dalvíkurprestakalli. Ekki er búið að veita embættið. #
- Átta sóttu um embætti prests í Glerárkirkju. Ekki er búið að veita embættið. #
- Tuttugu sóttu um embætti prests í Grafarvogskirkju. Ekki er búið að veita embættið. #
Sigríður Guðmarsdóttir @ 13/6/2014 15.26
Sæll Pétur og þakka þér fyrir þetta yfirlit. Það sem mér finnst vanta í það er eftirfarandi:
1. Umsóknir frá körlum og konum eru nokkuð jafnar eins og þú bendir á, en hins vegar er mikill kynjahalli á konum og körlum fyrir í prestastétt. Konur eru tæpur þriðjungur presta og sitja gjarnan minnstu brauðin. Eftir því sem brauðin verða stærri og prestum fjölgar eru færri konur í sóknarprestsstöðum. Þetta hefur félag prestsvígðra kvenna bent á og hvatt til þess að stefnt verði að því að konur gegni ábyrgðarstöðum í kirkjunni til jafns við karlmenn.
2. Þú segir: “Það er á engan hátt sanngjarnt gagnvart fólki að flokka það eftir breytunni karl vs kona.” Um það er ég hjartanlega sammála þér. Það sem hins vegar liggur ekki í augum uppi er að kyn er mjög gjarnan breyta í mannaráðningum, án þess að nokkurn tímann sé um það rætt. Við búum enn í samfélagi sem er gegnsýrt af fordómum gegn konum og því er hlutunum gjarnan stillt upp á þann hátt eins og spurningu um það hvort eigi að velja hæfasta manninn eða konuna, eins og þetta tvennt geti ólíklega farið saman. Ég minni á að jafnréttislögin fjalla einmitt um það að kyn eigi ekki að skipta máli við stöðuveitingu. Það er bannað að mismuna fólki eftir kyni og Ísland hefur skrifað undir bann við mismunun af ýmsu tagi. Jafnréttislögin styðja við þetta bann við mismunun með því að ef ekki sé hægt að setja fram málefnalegar skýringar á því að karl sé hæfari til að hljóta starf en kona (að því gefnu að það kyn sé í miklum minnihluta í viðkomandi stétt), þá beri að veita konunni starfið. Konu í starfi þar sem fyrir er mikill meirihluti karla er þannig nóg að geta sýnt fram á að hún sé jafnhæf karlinum til þess að teljast eiga að fá starfið. Gildir þá engu hvort um er að ræða starf á opinberum vettvangi eða á almennum vinnumarkaði. Þetta snýst ekki um karla versus konur, heldur einmitt að kyn á ekki að skipta máli við stöðuveitingar og vinnu, heldur hæfi.
Málefnalegur rökstuðningur, víðsýni og jafnrétti á þannig að vera aðalsmerki í kirkju sem vill taka sér tak.
Eins og þú vona ég að lausum störfum fjölgi á næstunni, því að við þurfum að finna starfsvettvang fyrir allt góða fólkið okkar. Þau eru sendibréf Guðs og eiga að fá tækifæri til að koma boðskapnum á framfæri í póstkassa mannanna. Guð láti svo verða og að karlar og konur njóti sannmælis í kirkjunni.
Kær kveðja, Sigríður