sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Kristín Sólveig Jónsdóttir f. 21.5.1933 d. 24.7.2014 · Heim · Kári Elíasson f. 7.6.1925 - d. 31.10.2014 »

Prédikun flutt í Neskirkju 2. nóvember 2014

Sigurvin @ 21.44 2/11/14

Að vígbúast í friði
Undanfarnar vikur hafa fréttir af vopnakaupum hins opinbera frá Noregi farið hátt í umræðunni. Fréttamenn hafa sinnt rannsóknarhlutverki sínu með sóma við að upplýsa almenning um þá breytingu sem átt hefur sér stað í vopnaburði lögreglunnar, án almennrar umræðu eða umfjöllunar á Alþingi. Við setningu kirkjuþings um liðna helgi fjallaði biskup Íslands um mikilvægi þess að kirkjan væri boðberi friðar og í kjölfarið spurði fréttakona ríkisútvarpsins álits hennar á „því að lögreglan hefði nýlega eignast hundruð hríðskotabyssa.” Það er mikið fagnaðarefni að íslenskir fjölmiðlar skuli leita til kirkjunnar til að taka þátt í umræðu um þau siðferðislegu málefni sem brenna á þjóðinni. Þar hefur kristin trú og kristin kirkja margt til málanna að leggja og getur reynst boðberi friðar.

Umræða um frið og vopnaða valdbeitingu á sér langa hefð í sögu kirkjunnar og dregur umræðan dám af stöðu hennar í samfélaginu á hverjum tíma. Sem dæmi breyttist umræðan mjög þegar kristni varð ríkistrú í Róm en á 4. öldinni urðu leiðtogar kirkjunnar, sem áður höfðu átt undir högg að sækja og sætt ofsóknum, mjög valdamiklir í Róm og fengu það hlutverk að helga stríðsrekstur keisaraveldisins. Á miðöldum urðu krossferðirnar til þess að helga og upphefja valdbeitingu við útbreiðslu trúarinnar og guðfræðingar smíðuðu kenningar um hvenær hægt væri að réttlæta stríð, sem til þessa dags hafa áhrif á umræðu um réttláta beitingu hernaðaríhlutunar.

Á fyrstu öldum kristinnar kirkju héldu menn hinsvegar á lofti þeim róttæka friðarboðskap sem Jesús boðaði, meðal annars í Fjallræðunni þar sem segir: „Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum.“ Í kennslu Jesú er hvergi að finna réttlætingu á valdbeitingu, heldur er því þvert á móti haldið fram að „slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina” og því mótmælt að hata óvini sína, heldur segir hann „elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.”

Þessi róttæka friðarboðun var bæði Gyðingum og Rómverjum framandi. Hún gekk með beinum hætti gegn þeim Gyðingum sem töldu valdbeitingu nauðsynlega til að brjótast undan oki Rómverja og rómverskri dyggðasiðfræði sem upphóf hersigra sem leið til að sanna karlmennsku þeirra og yfirburði.

Síðastliðna helgi lauk ég meistaraprófi í nýjatestamentisfræði frá Háskóla Íslands og ritgerðarefni mitt var meðal annars karlmennskuhugsjónir í Rómarveldi til forna og í frumkristni. Hermennska og karlmennska voru í hugum Rómverja tengd órofaböndum og líf hermannsins, vita militaris, var talið hið dyggðugasta, sem einkenndist af styrk, sjálfsaga, kænnsku og bræðralagi.

Í rómverskum bókmenntum og lofræðum valdsmanna er að finna ótal lýsingar á hernaðargetu þeirra og við upphaf okkar tímatals náðu lýsingarnar sífellt nýjum hæðum í keisaradýrkuninni. Þvert á hermennskuhugsjónir var herinn hinsvegar á þeim tíma ekki lengur vettvangur þar sem rómverskir hefðarmenn gátu hlotið upphefð og skjótan frama. Á fyrstu öldinni var meginþorri hermanna útlendingar, sem ekki töluðu latínu eða áttu samleið með rómverskum hefðarmönnum, verkefni þeirra var að gæta útstöðva sem voru undir sífelldum árásum og keisarar völdu oft útlendinga í æðstu stöður frekar en að hætta á að valdamiklar ættir gætu ógnað stöðu þeirra.

Í þessari karlmennsku krísu fann boðskapur kristindómsins hljómgrunn meðal rómverskra hefðarmanna og hinir fyrstu fylgjendur vöktu gríðarlega athygli fyrir það að verja sig ekki undir ofsóknum. Í Nýja testamentinu er því lýst að Jesús hafi ekki veitt viðspyrnu þegar hann var beittur ofbeldi og hann ávítar lærisveina sína fyrir að ætla að verja sig með valdbeitingu. Jesús segir við Pétur: „Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.” Jafnframt er í Postulasögunni sagt frá Stefáni píslarvotti, sem er grýttur fyrir trú sína án þess að veita viðstöðu, og lofar Guð á banastundu með orðunum „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.”

Píslarvættisfrásagnir af lærisveinum Jesú, fylgjendum og leiðtogum frumkirkjunnar frá 2. og 3. öld skipta hundruðum og gegnumgangandi stef í þeim er sú friðarafstaða að veita ekki mótstöðu andspænis valdbeitingu og að hefna ekki fyrir ofbeldið. Kirkjufeður á borð við Origenes, Tertúllíanus og Clemens frá Alexandríu kölluðu sig hermenn Krists og höfnuðu öllum vopnaburði, heldur börðust fyrir friði og útbreiðslu fagnaðarerindisins vopnaðir einungis sannleikanum og orði Guðs. Ég held því fram í ofangreindri ritgerð að þessi viðsnúningur á hernaðarhyggju hafi svarað þeirri krísu sem Rómverjar stóðu frammi fyrir í hernaðarhugsjónum sínum og þannið stuðlað að útbreiðslu kristindómsins meðal rómverskra hefðarmanna.

Það er ekki tilviljun að krossinn varð að táknmynd kirkjunnar en róttækari viðsnúning á merkingu er varla hægt að hugsa sér. Hinn rómverski friður Pax Romana byggði á æ harðari valdbeitingu til að halda völdunum í skefjum og krossinn var hryllegasta aftökutæki sem Rómverjar réðu yfir. Við vegkanta í Rómarveldi stóðu krossar og minntu þegnana á að halda friðinn, ellegar vera teknir af lífi til áminningar um hvað verður um þá sem tala gegn valdi keisarans. Hinn kristni boðskapur byggði á friði sem var ekki af þessum heimi, friði heilags anda, og því þurftu kristnir ekki að tryggja hann með hervaldi eða svara í sömu mynt.

Í trú gátu píslarvottarnir treyst því að Guð myndi framfylgja réttlæti sínu á hendur ofbeldismönnum og hvílt í þeirri vissu að eiga himnavist vísa handan dauða. Andspænis auknum ofsóknum á hendur kristnum mönnum stóðu þeir sem hugrekki höfðu til með sannfæringu sinni, án þess að grípa til vopna, og þessi framandi viðbrögð urðu að lokum til þess að kristni náði útbreiðslu um allt heimsveldið.

Í okkar samtíma eru slík viðbrögð jafn framandi og í fornöld og það er því miður fágætt að ofbeldi sé mætt með elsku, jafnvel í hinum kristna heimi. Þessvegna er fordæmi þeirra sem sýnt hafa friðsama mótspyrnu á borð við Mahatma Ghandi og Martin Lúter King þeim mun dýrmætara og sá sáttarvilji sem sýndur var í Suður Afríku undir forystu Nelson Mandela og Desmond Tutu fágætt leiðarljós.

Það er hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga að vera friðsöm og vopnlaus þjóð og þessvegna ristir það þjóðarsálina djúpt þegar yfirvöld fara framúr almenningi í vopnavæðingu lögreglunnar. Ég hef ekki í hyggju að taka afstöðu til þess hvaða vopn eðlilegt er að sérsveitir lögreglu þurfi á að halda, en ég tel það varða þjóðina og sé ekki einkamál hennar. Það kann að vera að sakleysið sé glatað í undirheimum Íslands en ég tek undir með þeim sem hafa orðað ótta við vígbúnaðarkapphlaup á milli lögreglu og skipulagðrar glæpastarfsemi og sett fyrirvara við að öflugri byssur auki öryggi almennings.

Fyrir lýðveldishátíðina 1944 orti skáldkonan Hulda ættjarðarljóð, sem er jafn óraunsætt og hinn róttæki friðarboðskapur Jesú og jafn bjartsýnt og boðun hans um himneskan frið. Í lofgjörð sinni til okkar fagra föðurlands segir hún okkur vera „[m]eð friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð” og biður „[g]eym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð.”

„Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?”

Við stríðslok vorum við hvorki fjarri vígaslóð né ókunn vopnum og valdbeitingu, ekki frekar en hinir fyrstu fylgjendur Jesú, en við áttum þá og eigum enn það val að skilgreina okkur með viðmiðum frelsarans sem friðarþjóð. Þjóð sem tryggir öryggi þegna sinna með kærleika, réttlæti og lögum, en ekki með alvæpni.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-11-02/predikun-flutt-i-neskirkju-2-november-2014/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Örn Bárður Jónsson @ 6/11/2014 21.19

Frábær prédikun hjá þér, Sigurvin, frábær!


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli