Prédikun flutt í Neskirkju 16. nóvember 2014
Sigurvin @ 16.25 16/11/14
Án kirkjunnar væri íslenskan glötuð
Gefðu að móðurmálið mitt,
minn Jesú, þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt út breiði
um landið hér,
til heiðurs þér
helst mun það blessun valda,
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.
Þannig orti Hallgrímur Pétursson í Passíusálmi 35 um móðurmál okkar, íslensku, í kjölfar lýsinga á því að á þremur þjóðtungum yfir krossi Jesú:
Útskrift Pílatus eina lét
yfir krossinum standa:
Jesús nefndur af Nazaret,
nýr konungur Gyðingalanda.
Arfleifð sálmaskáldsins lifir í menningu okkar til þessa dags og er fagur vitnisburður um þann fjársjóð sem okkur var falinn í okkar „ástkæra, ylhýra máli”, svo vitnað sé í Jónas Hallgrímsson.
Á afmælisdegi Jónasar, þann 16. nóvember ár hvert, er haldinn Dagur íslenskrar tungu en deginum er ætlað að beina athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og menningu alla.
Framtakið er sannarlega verðugt og í tilefni dagsins langar mig að staðhæfa, sem því miður er sjaldnast viðurkennt, að án atbeina kirkjunnar væri tunga okkar í þeirri mynd sem við þekkjum hana líklegast glötuð.
Þjóð okkar verður til á tímum landflutninga og þjóðfélagsumróta um það leiti sem að forfeður okkar kynntust kristnum áhrifum. Íslensk erfðagreining hefur staðfest þá kenningu, sem margir höfðu efast um, að forfeður okkar hafi verið norrænir karlar sem hafi komið við á Bretlandseyjum og haft þar með sér konur og þræla, sem að öllum líkindum voru kristin. Kristin trú hefur því lifað með og mótað þjóð okkar við rúmstokk barna frá því við fyrst stigum hér á land.
Hin norræna menning og tunga er færð í letur í kjölfar kristnitökunnar og það er með ritstörfum kirkjunnar manna að hin glæsta miðaldar-ritöld okkar hefst. Jafnvel elstu heimildir okkar um heiðni og forna siði eru ekki ósnert af kristnum áhrifum eins og Völuspá ber vitni um. Pétur Pétursson prófessor hefur fært fyrir því rök að hugmyndir Völuspár um Ragnarök byggi á býsönskum og keltneskum dómsdagsmyndum, líkt og varðveittar eru í tréristum á Þjóðminjasafninu. (i)
Elsta rit sem varðveitt er á Íslensku eru hinar fornu stólræður í Íslensku Hómilíubókinni en um hana sagði Jón Helgason heitinn: „Óvíða flóa lindir íslenzk máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búin en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.” (ii) Þá er víða í Íslendingasögum áhrifa að gæta úr Biblíunni, að ekki sé minnst á það merkilega safn trúarrita, biskupasagna og jarteinabóka sem varðveitt er frá þessari gullöld ritmenningar á Íslandi.
Siðbótarmennirnir lögðu ekki síður til varðveislu tungunnar en hinir fornu höfundar en þýðingarstórvirki Odds Gottskálsksonar og Guðbrands Þorlákssonar lögðu grunninn að íslensku biblíumáli. Þó þýðingarstarf þeirra hafi ekki verið sambærilegt Biblíu Lúthers sem myndaði háþýsku, skildi ekki vanmeta áhrif þeirra á íslenska tungu og varðveislu hennar. Guðbrandsbiblía er sá mælikvarði sem að allar seinni biblíuþýðingar hafa miðað við og deilur, um þýðingar á borð við Steinsbiblíu, hafa oftar staðið um málfar en um guðfræðilegt innihald.
Þá hefur Jón G. Friðjónsson safnað þeim föstu orðasamböndum, orðatiltækjum og málsháttum sem fests hafa í málinu og skipta þau hundruðum. Málfar okkar yrði fátækara ef ekki nyti við orðasambönd á borð við „að taka í taumana”, sem komið er úr Síraksbók, og að „hella úr skálum reiði sinnar”, sem vísar í engla Opinberunarbókarinnar við hinstu tíma. (iii)
Guðbrandsbiblía var dýr og því ekki á allra færi að eignast hana en í hennar stað áttu húslestrarbækur sér sess á hverju heimili og Vídalínspostilla var útbreiddasta rit á Íslandi um nær tveggja alda skeið. Þar fóru engar lágbókmenntir en rismikið myndmál prédikana á borð við reiðilesturinn víðfræga, létu engan ósnortinn.
Upphaf barnabókmennta á Íslandi hefur verið rakið til upplýsingarmanna og upprisu millistéttarinnar í Evrópu en það er varla tilviljun að prestar leiddu það frumkvöðlastarf hér á landi. (iv) Hið augljósa hefur yfirsést að heittrúarstefnan, með sína áherslu á að allir læri að lesa til að geta nálgast Guð í heilagri ritningu, leiddi af sér þörfina fyrir lestrarefni fyrir börn. Efni sem oftast hafði í upphafi trúarlega og siðferðislega umvöndun að markmiði.
Loks ber að nefna þátt kirkjunnar í menntakerfi Íslendinga en í gegnum Íslandssöguna hafa prestar sinnt kennslu í lestri og íslensku. Fyrst í klausturskólunum, eftir siðbót með uppfræðslu almennings undir fermingu og loks með stofnun Háskóla Íslands, þar sem Prestaskólinn sameinaðist Læknaskólanum og Lagaskólanum. Frá upphafi ritaldar og fram á tuttugustu öld er erfitt að ímynda sér hver staða tungumálsins væri ef kirkjunnar hefði ekki notið við.
Guðspjall dagsins er dæmisaga sem sett er í samhengi heimsslita og yfirvofandi dóms en áminning hennar á vel við í samhengi íslenskrar tungu. Í sögunni segir frá hyggnum og fávísum meyjum á leið til brúðkaups. Þær hyggnu gæta þess að eiga næga olíu á lömpum sínum á meðan þær fávísu vænta þess að geta fyllt á lampa sína síðar, jafnvel þó loginn slokkni. Þær glata því sem þeim var treyst fyrir.
Líkt er með íslenskuna að erfiðara verður að endurvekja tungu okkar ef við glötum henni en að standa vörð um hana nú. Íslenska er meðal þeirra Evrópumála sem málvísindamenn telja að sé í mestri útrýmingarhættu og byggja þær ályktanir á þeim stuðningi sem að íslenskan fær í tölutækni samtímans. Sú var tíðin að hægt var að fá stýrikerfi fyrir Apple Macintosh tölvur á íslensku en það tilheyrir nú gullnri fortíð.
Ályktanir þessa hóps taka þó ekki til málvitundar eða sjálfsmyndar þjóðar en ég tel að fáir séu tengdari tungumáli sínu en við Íslendingar. Dauðadómur íslenskunnar er ekki innsiglaður og það er í okkar höndum að standa vörð um þann fjársjóð sem við höfum fengið í arf.
Eitt af því sem ógnar stöðu íslenskunnar í samtímanum er feimni við trúararf okkar í skólakerfinu og á ég þar ekki við trúboð, heldur uppfræðslu um kristindóm, kirkju og trúarlegt myndmál. Sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er nær ólæs á hinn biblíulega arf og skilur jafnvel ekki einfaldar trúarlegar vísanir í bókmenntum.
Læsi og málvernd haldast í hendur og lesskilningur byggir ekki einungis á því að geta greint merkingu orða heldur að geta lesið og skilið menningararf okkar, sem er og verður gegnsýrður af kristnum áhrif. Þar berum við ábyrgð á degi íslenskrar tungu að gefa ekki afslátt af trúararfinum og krefjast þess af skólakerfinu að kenna ungu fólki að vera læs á Biblíuna og öðlast þarmeð lykil að íslenskum bókmenntum, frá Völuspá til nútímahöfunda.
(i) Pétur Pétursson, Völuspá, dómsdagur og kristnitakan á alþingi
(ii) Jón Helgason, Handritaspjall 1958
(iii) Jón G. Friðjónsson, Rætur Málsins 1997.
(iv) Silja Aðalsteinsdóttir, Íslenskar Barnabækur 1780-1979 1981.
Örn Bárður Jónsson @ 17/11/2014 16.29
Flott!