sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Neskirkju á Nýársdag 2015 · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 15. febrúar 2015 »

Prédikun flutt í Neskirkju 11. janúar 2015

Sigurvin @ 13.07 11/1/15

Að vera barnaleg
Djúpt í sálarlífi hverrar manneskju liggur djúpstæður ótti. Við munum fæst hvenær sá ótti kom inn í líf okkar, eða hvað varð til þess að við urðum í fyrsta sinn óttaslegin en við vitum að fyrir tilkomu hans ríkti í okkur fullkomið traust. Í gegnum lífið erum við að glíma við þann ótta og sveiflumst á milli þess að treysta því að við séum elskuð og okkur sé óhætt að lifa og því að skynja okkur ógnað í tilverunni.

Hvítvoðungur í faðmi móður sinnar upplifir sig öruggann, ef allt er eðlilegt, og treystir því að séð verði fyrir öllum sínum þörfum. Slíku trausti fylgir getan til að gefa af sér skilyrðislausan kærleika og í nærveru barns ríkir helgi, sem við flest þekkjum sem höfum umgengist ungabörn.

Þetta traust verður fljótt rofið þegar við áttum okkur á því að þörfum okkar verður ekki alltaf mætt og í kjölfarið förum við að skilyrða tilfinningar okkar byggt á baráttunni um öryggi. Sá ótti að þörfum okkar verði ekki mætt, á sviði veraldlegra gæða, því að tilheyra samfélagi og því að vera elskuð, drífur okkur áfram og er rótin að flestum þeim brestum sem mannkynið glímir við.

Ef við óttumst það að fá ekki nóg, verðum við ófús til að deila veraldlegum gæðum okkar með öðrum; ef við óttumst höfnun, reynum við annaðhvort að falla inn í hópinn á eigin kostnað eða afneitum þörfum okkar og drögum okkur í hlé; og ef við óttumst að við séum ekki elskuverð, krefjumst við ástar með sjálfsskaðandi hætti.

Við vitum öll betur og kennum jafnvel börnum okkar að forðast hegðun, sem við sjálf gerumst sek um þó hún meiði okkur. Ótti er harður húsbóndi og þráin eftir óspilltri fortíð barnæskunnar eða veröld hinnar goðsagnakenndu aldingarðsvistar býr djúpt í sálarlífi okkar.

Guðspjall dagsins kallast á við þessa þrá.

Sagan af viðbrögðum Jesú við því að fylgjendur hans átöldu börn fyrir að vilja nálgast hann er ein af þekktustu frásögnum Nýja testamentisins og orð hans eru lesin í hvert sinn sem barn er fært til skírnar í kristinni kirkju.

„Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.”

Ummæli Jesú eru jafnan skilin sem ákall til fylgjenda sinna um að sinna börnum og unglingum og það er sannarlega brýnt en þau eru líka róttæk gagnrýni á samfélag fullorðinna.

Börn voru í samfélagi fyrstu aldar flokkuð með konum og þrælum. Þau höfðu með öðrum orðum ekki fulla stöðu í samfélagi sem leit einungis á frjálsborna karlmenn sem gjaldgenga í hinu opinbera rými. Platón líkti stöðu barna gagnvart fullorðnum við stöðu dýra gagnvart manneskjum og Aristóteles taldi börn líkjast konum í því að vera auðtrúa, tilfinningasöm og veikgeðja. Rómverjar lögðu mikla áherslu á barneignir og forn bréf bera þess vitni að fjölskyldur elskuðu börn sín á sama hátt og við gerum. Rómverskir höfundar litu hinsvegar barnæskuna neikvæðum augum og töldu hana óæðra ástand sem bæri að afneita um leið og þroska er náð.

Gyðingar byggðu viðhorf sín á Gamla testamentinu og þar eru barneignir álitnar blessun Guðs og eilífa lífið felst í því að eignast marga afkomendur. Getan til að eignast börn er því gríðarlega mikilvæg í gyðinglegri hugsun og margar af dramatískustu sögum Biblíunnar fjalla um erfiðleika tengdum barneignum.

Afstaða gyðingar til barna endurspeglast í Efesusbréfinu, sem vitnar í 4. boðorðið „,,Heiðra föður þinn og móður” – það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“” og leggur áherslu á feður að ala börn sín upp með fræðslu og með aga (Ef 6.1-4). Víða í gyðinglegum bókmenntum er að finna mikilvægi þess að öldungar leiðbeini ungmennum og að börn virði og læri af hinum fullorðnu.

Sú hugmynd Jesú að fullorðnir einstaklingar þurfi að taka við guðsríkinu eins og börn, hefur því verið róttæk og sláandi í hugum hinna fyrstu áheyrenda og er enn.

Ríki Guðs merkir í boðun Jesú, annarsvegar það ástand réttlætis og friðar í samfélaginu sem er vilji Guðs og við öll þráum og hinsvegar afstaða eða ástand sem við getum nálgast í trúarlífi okkar.

Í allri boðun Jesú eru það hin smáu sem hafa augu til að greina guðsríkið og börn í valdleysi sínu og varnarleysi sjá guðsríkið á hátt sem fullorðnir geta ekki öllu jafna. Leiðin inn í ríki Guðs felst í boðun Jesú alltaf í því að leggja af, völdum, stolti, vitsmunahroka, hégómagirnd eða hverju því sem hindrar okkur í að upplifa auðmýkt í afstöðu okkar. Til að mega ganga inn í það ríki, þurfum við að endurfæðast, eða verða á ný eins og börn.

Samfélag okkar leggur mikla áherslu á börn og það er án efa að hluta til komið vegna þeirra áhrifa sem að hugmyndir kristindómsins hafa haft. Við stöndum eftir fremsta megni vörð um börn í samfélagi okkar, álítum enga glæpi alvarlegri en að meiða börn og leggjum mikið á okkur til að mennta og annast börn. Þúsundir Íslendinga verja stafsferli sínum í menntun og uppeldi barna og kjör uppeldisfagstétta endurspegla ekki viðhorf þjóðarinnar til þeirra, góðir kennarar eru grunnurinn að bættri framtíð.

En hvað á Jesús við þegar hann segir að við eigum að læra af börnum og verða eins og börn til að mega sjá leyndardóma guðsríkisins?

Fyrst og fremst held ég að það sé þráin eftir því ástandi að geta lagt af ótta og elskað skilyrðislaust. Hluti af þroskaferli okkar felst í því að skilja að gæði okkar eru takmörkuð og að það eru ekki allir tilbúnir til að taka okkur í hópinn eða veita okkur elsku.

Þar spilar trúin stórt hlutverk og Jesús leggur til þá róttæku hugmynd að við eigum nóg, að við tilheyrum samt og séum í grunninn elskuð. Á tungumáli trúarinnar heitir það að hvíla í trausti á Guði. Slíkt traust getur aldrei byggt á þeim harða raunveruleika sem við búum við, þar sem skortur er á veraldlegum gæðum, samkennd og kærleika, heldur hvílir í þeirri vissu að þrátt fyrir að allt bendi til hins gagnstæða býr kærleiki Guðs að baki skipan heimsins.

Börn geta reynst okkur sannar fyrirmyndir.
Í erfiðustu aðstæðum hafa börn einlæga getu til að leika sér og gleðjast.
Þau hafa augu til að sjá töfra tilverunnar og ævintýri bakvið hvern hól.
Þeim finnst allt spennandi, enda allt nýtt og geta glaðst yfir því smáa í tilverunni.
Þegar barn fellur við og meiðir sig, hættir það ekki að reyna, heldur stendur upp og með þrautsegju lærir samt að ganga, hlaupa, hjóla eða sparka í bolta.
Ör sín bera þau með stolti, eins og þegar barn brýtur bein og vill leyfa öllum að skrifa á gypsið eða sjá sárið.
Þau eru fljót til að sýna tilfinningar, ef gert er á þeirra hlut, en jafn fljót að fyrirgefa og dvelja ekki við það sem liðið er.
Börn elska að skapa og eru óhrædd við að sýna afrakstur sinn stolt, hverjum sem vill sjá hvað þau eru klár.
Þau tileinka sér auðveldlega fyrirmyndir og leyfa sér að dreyma stórt, geta í huganum allt sem þau ætla sér í framtíðinni.
Þau eru óhrædd við breytingar og áskoranir og fagna hverju tækifæri til að láta reyna á hæfileika sína.
Þá eru börn óhrædd við að vera þau sjálf og að elska skilyrðislaust, þar til þau læra að halda aftur að sér eins og okkur fullorðnum hættir til.

Það að temja sér lífsafstöðu bernskunnar á fullorðinsárum felur ekki í sér að loka augum okkar fyrir sársauka heimsins, heldur getunni til að takast á við heiminn án þess að vera með varnirnar á lofti. Til að það sé hægt verðum við að mega treysta því að við séum elskuð, að við eigum okkur stað og að fyrir okkur verði séð, hvað sem ytri aðstæður segja. Róttækari verður áskorunin ekki.

Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.

url: http://sigurvin.annall.is/2015-01-11/predikun-flutt-i-neskirkju-11-januar-2015/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli