sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Neskirkju 15. febrúar 2015 · Heim · Margret Erna Hallgrímsson f. 13.10.1953 - d. 6.2.2015 »

Theodóra Thoroddsen f. 27.10.1929 - d. 10.2.2015

Sigurvin @ 23.41 18/2/15

Að eiga góða og glaða lund
gulli tel ég betra.
Vertu alla ævistund
aðeins 19 vetra.

Þessar ljóðlínur eiga sannarlega við þegar við minnumst ömmu Dódu, Theodóru Thoroddsen, við endalok lífshlaups hennar. Fram á síðasta dag lifði Theodóra lífi sínu af þrótti sem að hæfa mundi hverju 19 vetra ungmenni. Það er óhætt að segja að Dóda hafi ekki verið hefðbundin amma. Eftirlaunaár hennar fóru í ferðalög og félagsstarf, samhliða hugsjónastarfi sem var henni hugleikið frá blautu barnsbeini.

„Muniði þegar Amma Dóda stóð á haus í sófanum” rifjuðu afkomendur hennar upp, til að sjá lífið með augum barnabarna sinna, þegar hún mótmælti svo mánuðum skipti Kárahnúkavirkjun og reisti níðstöng upp á heiði, fór í ferðalög upp á fjöll í tjaldi sem varla rúmaði hana eina og hafði steinselju bakvið eyrun til að fæla burt mýið, skarst í leikinn þegar Færeyjingar flugust á í Kringlunni og allt þetta með lífsgleðina að vopni. „Bara nógu mikið vesen” var viðkvæði þessarar lífglöðu baráttukonu.

Theodóra Thoroddsen fæddist á Akureyri 27. október 1929, næst elst í hópi 6 systkina. Foreldrar hennar voru þau Sverrir Skúlason Thoroddsen og Helga Laufey Eyjólfsdóttir. Þegar Dóda var á þriðja aldursári flutti fjölskyldan að Tjarnargötu í Reykjavík en á heimilinu bjó föðuramma hennar og nafna Theodóra Thoroddsen skáldkona og hafði á hana mikil áhrif sem barn.

Skáldkonan er þekktust fyrir Þulur sínar, sem Muggur myndskreytti, en í kvæðum hennar er yrkisefnið iðulega staða kvenna í samfélaginu.

Mitt var starfið hér í heim
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga.

Eg þráði að leika lausu við
sem lamb um grænan haga,
en þeim eru ekki gefin grið,
sem götin eiga að staga.

Tregafull þrá skáldkonunnar, sem vildi konum annað hlutskipti, bar ávöxt í lífsþrótti nöfnu hennar en hún tilheyrir kynslóð kvenna sem ruddu brautina til æðstu metorða samfélagsins. Frú Theodóra var róttæk jafnaðarmanneskja, líkt og allt hennar fólk, og Sverrir sonur hennar var einn af stofnendum Kommúnistaflokksins. Dóda ólst því upp við að láta sig hugsjónir varða og það veganesti varð henni dýrmætt út lífið.

Af systkinum sínum var hún nánust Katrínu, eða Trinsu, enda einungis ár á milli þeirra, en öll systkinin héldu tengslum út lífið. Þær deildu herbergi í æsku og kölluðu athvarf sitt „okkó” eða okkar herbergi. Varðveitt er vísa frá því þær voru börn sem hljóðar: Í herbergi Katrínar og Co, / koma þær Tesa litla og Hró, /og hann Gvendur mysi og mjó, / mjó Dódó. / Grenjar þar grammófónninn jazz, / Gvendur fær hlunk á sinn rass, / í okkó eru Dóda og drasl, / dass var dass.

Niðurlagið vísar í þýskar lexíur og Gvendur er bróðir þeirra Guðmundur. Katrín var eins og áður sagði elst, fædd 1928, en hún lést árið 2012. Þriðji í röðinni var Guðmundur Hrafn fæddur 1936 en hann lést sama ár og hann fæddist og alnafni hans Guðmundur Hrafn er fæddur 1937. Þá var Kristín Ólína fædd 1940, hún lést 2013, og yngst er Helga Ragnhildur fædd 1944.

Að loknum barnaskóla tók Theodóra inntökupróf í MR og komst inn ásamt stórum hópi jafnaldra og sá árgangur – MR stúdentar ’49 - hefur haldið hópinn æ síðan og hittist reglulega hér í Neskirkju. Í árgangi hennar er frú Vigdís Finnbogadóttir forseti, fyrsti kvenprófessor Háskóla Íslands, auk margra áhrifakvenna í Þjóðmálum 20. aldar. Theodóra lauk ekki prófi og hætti í 4. bekk en hugur hennar var í pólitísku starfi Æskulýðsfylkingarinnar, sem hún starfaði með um árabil.

Við heyrum nú flutt kvæði eftir föður hennar, við lag eftir Skúla Halldórsson.

Uppi´um heiðar úti´um sker
inní´ skógarkjarri
Ég vil una ein með þér
öllum sorgum fjarri.

Ástin í lífi Dódu var Gísli Halldórsson leikari en þau kynntust ung í Fylkingunni. Hann var 19 ára en Theodóru, þá 16 ára, fannst hann eldgamall þegar þau kynntust. Þau hjón voru ólík en lífskraftur þeirra var sá sami. Gísli starfaði sem blaðamaður á þeim árum, var auglýsingastjóri á Þjóðviljanum, starfaði sem leigubílstjóri og lék þar að auki en hann lærði leiklist hjá Lárusi Pálssyni.

Gísli var að vestan, fæddur á Tálknafirði 1927, en foreldrar hans Halldór Gíslason og Valgerður Jónsdóttir fluttust að Skeggjastöðum í Mosfellssveit þegar hann var þriggja ára. Faðir hans drukknaði það ár og móðir hans ein hélt fjölskyldunni saman í Reykjavík af miklu harðfylgni. Gísli og Dóda hófu búskap í einu herbergi í Barmahlíð árið 1949. Þau tryggðu sér lóð í Mosgerði og byggðu sér þak yfir höfuðið með því að flytja inn í eina stofu með klósetti og stækka síðan smám saman undir fjölskylduna. Þar bjuggu þau í 30 ár og ólu upp börn sín.

Börn þeirra eru þrjú, nafna hennar Theodóra, kölluð Tidda, er fædd 1950. Eiginmaður hennar er Matthías Halldórsson og þau eiga jafnframt Theodóru fædda 1979, en hún er kölluð Theó, líkt og formóðirin og skáldkonan. Theó á dóttirina Örnu Lilju Atladóttur fædda 2013. Næstur var Halldór fæddur 1952 en hann lést af krabbameini fyrir tveimur árum. Börn hans af fyrra hjónabandi eru Björn fæddur 1983 og Valgerður fædd 1985 en eiginkona hans var Sóley Benna Stefánsdóttir. Sonur Sóleyjar er Andri Sigurður Haraldsson. Yngstur er Sverrir fæddir 1957. Kona hans er Kristbjörg María Birgisdóttir. Synir þeirra eru Gísli fæddur 1983, hann á þau Tori Lynn fædda 2005 og Brand Óla fæddan 2007, og Ragnar fæddur 1989.

Ferðalög voru sameiginlegt áhugamál Gísla og Dódu og þau voru óþreytandi við að ferðast um landið. Stundum var keyrt af stað með börnin og óljósan áfangastað í huga og tjald fest niður þar sem aðstæður leyfðu. Það þurfti aldrei að sannfæra hana um að koma með í göngu og nægði þá geimfararfæði til ferðarinnar, þurrt kex og kavíar í túpu, og peysa til skiptanna. Dóda tilheyrði fjölmörgum félagssköpum og sótti í að ferðast með þeim sem helst hún gat, með fornsagnahópi ferðaðist hún t.d. til Orkneyja og nágrennis, með MR-ingum síðast til Dyflinar fyrir tveimur árum, með náttúrufræðifélaginu fór hún í ótal göngur og sótti reglulega Fagottkonserta á Barðarströnd með systur sinni en það kölluðu þær söng æðafuglsins.

Þá áttu þau hjón lengi sumarathvarf á Neistastöðum í sumarbústað, Gísli reisti hús í Hveragerði með fjórum svefnherbergjum fyrir þau og timburhús í Kaldárseli sem að Halldór sonur þeirra teiknaði. Síðast áttu þau sumarland í Kjós og þar ræktaði hún Birki og ýmsan gróður og fékk barnabörnin til að safna fyrir sig fræjum.

Theodóra var langt á undan sinni samtíð í náttúruverndarsjónarmiðum og þegar þau hjón bjuggu í Breiðholti var ekki ruslatunna á heimilinu, allt var flokkað og öllu skilað á enduvinnslustöðvar. Hún hafði aldrei verið hrædd við að láta sig málstað varða og hún tók virkan þátt í baráttu kvenna fyrir jafnrétti á árunum í kringum kvennafrídaginn, gekk í Keflavíkurgöngum, friðargöngum á Þorláksmessu og tók þátt í mótmælum gegn NATÓ. Síðast fann hún hugsjónum sínum farveg í ást á landi okkar og náttúru og var svo misboðið yfir Kárahnjúkavirkjun að hún stóð og mótmælti fyrir utan Stjórnarráðið þar til þingi lauk vorið 2003.

Theodóra Thoroddsen var engin venjuleg kona og hún reyndist samferðafólki sínu og afkomendum fyrirmynd og innblástur með lífi sínu. Stuttklippt í göngubuxum með vösum, bros á vör og hugsjón í hjarta, lét nærvera hennar engan ósnortinn. Staðalmyndir áttu ekki við, hvorki staðalmyndir sem segja að konur eigi að vera feðraveldinu undirgefnar, næ þær sem segja að ömmur eigi að vera gamaldags. Nafna hennar og dótturdóttir, sem er í dag jarðfræðingur þökk sé áhrifa frá ömmu sinni, minnist þess að á meðan fæst eldra fólk var með farsíma var hún að SMS-ast á við gömlu konuna í jarðfræðiferðum til að fá lánaða sérfræðiþekkingu. Þá var jafnan það látið standa það sem skemmtilegra reyndist.

„Bara nógu mikið vesen.”

Jafnaðar- og jafnréttishugsjón, sköpunarást og lífsgleði eru lofsöngur Dódu til lífsins og sá söngur blæs okkur sem hana kveðjum byr undir báða vængi í þeirri viðleitni að láta okkur þær hugsjónir varða. Skáldkonan Hulda færði þjóðinni að gjöf lofsöng til íslenskrar náttúru og ættarbyggðar vorrar í sálminum Hver á sér fegra föðurland og í orðum hennar enduróma hugsjónir Dódu.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?

Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Theodóra Thoroddsen lést 10. febrúar síðastliðinn. Blessuð sé minning hennar.

url: http://sigurvin.annall.is/2015-02-18/theodora-thoroddsen-f-27-10-1929-d-10-2-2015/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli