Margret Erna Hallgrímsson f. 13.10.1953 - d. 6.2.2015
Sigurvin @ 15.04 24/2/15
10. janúar 2015, klukkan 11.00
Steinka – nútímakvæði
Það var um sumar er hann og hún,
tólf og ellefu ára,
léku sér á Víkingadrekaþökunum niður í Hafnarstræti,
sátu klofvega yfir skreyttan mæninn og virtu fyrir sér útsýnið.
Og þar sást um víðan völl.
Við gamla Ingólfsapótek í Fishersundi
var símastaur
og þar fikruðu þau sig upp
á mjóan hrímaðan
steinvegg, sem girtur var með gaddavír,
klifruðu upp á þakið,
sem var bárujárnsklætt grænt þak
og briddað með hrímuðum kanti.
Þar sáu þau beint yfir á bílaplan Steinþórs.
En á efri hæð þessa húss var útgerðarfélag en niðri herraverslun og ísbúð Dairy Queen.
Og þar sást um víðan völl.
Draumurinn var alltaf að komast upp á þak Moggahallarinnar
sem aldrei varð
Þau þekktu hverja örðu – hvern stein á Öldugötu, Bárugötu og Ægisgötu.
—
Margret orðaði hugsanir sínar í ljóðum og þetta nútímakvæði eins og hún kallar það í stílabók sinni, lýsir bernskulöndum hugans í Vesturbænum.
Þá um kvöldið hringdi hún í Guðmund bróður sinn og deildi með honum barnæskuminningum sínum og saman rifjuðu þau upp hvað Vesturbærinn var þeim og er.
Hér átti Greta heima og kaus að verða eftir, jafnvel þegar móðir hennar flutti úr hverfinu á Kleppsveginn. Þau systkini þekktu hverja örðu, hvern stein í nágrenni við heimili þeirra að Öldugötu 11 og í Vesturbænum er að finna samferðarfólk hennar og baksvið í gegnum súrt og sætt.
Þegar lærisveinar Jesú bera undir hann orðaskipti sín á milli um hvernig beri að forgangsraða lífgæðum í þessu lífi og handan þessa lífs og spurðu „Hver er mestur í himnaríki?“, kallaði Jesús til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.
Ummæli Jesú hafa samtímis orðið mönnum hvatning til barngæsku og merkingarfræðileg ráðgáta um aldir en hluti af leyndardómi þess sem Jesús lýsir er fólginn í barnæskuminningum okkar.
Hvar leitum við eftir styrk og hvar finnum við festu þegar við fetum okkur í gegnum grýtta braut áfalla á lífsgöngunni?
Það himnaríki sem um ræðir er í senn sá áfangastaður handan lífs, sem við megum í trú vona á að taki við að lokinni lífsgöngu okkar og hýsir nú Gretu sem frá ykkur var tekinn, og það skjól sem við leitum í þegar sorgin sækir að og áföll dynja yfir.
Í barnæskunni áttum við skjól í hjarta okkar, búið um af umönnun foreldra og ástvina, en ætíð nærri í þeirri vissu að við göngum ekki ein í gegnum lífið. Þið eigið í sorg ykkar það skjól sem veitist öllum sem þess leita í auðmýkt. Skjól í faðmi minninga ykkar, skjól í faðmi ástvina ykkar og skjól í hendi þess Guðs sem heldur á Gretu, þegar líkama hennar nýtur ekki lengur við.
Margret Erna Hallgrímsson var yngst systkina og óskabarn foreldra sinna, fædd 13. október 1953. Hún var fríð frá bernsku og björt yfirlitum, með ljóst hár og græn augu, og skar sig þannig frá systkinum sínum. Það var bjart yfir Gretu sem barn og hún var hláturs- og brosmild og fordekruð verandi yngst í húsinu á Öldugötu, þar sem var mikill samgangur á milli fjölskyldna í húsinu.
Faðir hennar var Ólafur Hallgrímsson, stórkaupmaður og ræðismaður Írlands á Íslandi, en hann var fæddur 24. ágúst 1921 á Siglufirði og móðir hennar var Þórunn Guðmundsdóttir, húsfreyja í Reykjavík fædd 29. september 1922. Ólafur og Þórunn voru við nám í bandaríkjunum á stríðsárunum og giftu sig þar 1944.
Systkini Gretu voru fædd með tveggja ára millibili, Guðmundur Hallgrímsson þann 16. júní 1946 og Sigríður Þórunn Hallgrímsson, fædd 24. júní 1948. Greta var því litla barnið í fjölskyldunni og gat, eins og Guðmundur rifjar upp, verið fyrir systkinum sínum en hún fékk mikið og gott atlæti. Heimili þeirra á Öldugötunni var smekklegt og fallegt og silfrið var pússað í hverri viku á fimmtudögum. Þau systkini fengu uppeldi þar sem borin var virðing fyrir sígildri menningu. Greta fékk að læra ballet við Listdansskóla Þjóðleikshússins sem barn og hafði af því mikla ánægju. Þá hafði hún mikin áhuga á leiklist og tók þátt í leiksýningum á borð við Dýrin í Hálsaskógi sem var eftirminnileg lífsreynsla. Samgangur við fjölskyldur þeirra hjóna var mikill og til vitnis um þau tengsl er nafn Gretu, en hún er nefnd í höfuðið á föðursystir sinni, sem hét Margret, og móðursystir sem hét Erna.
Þegar Greta var á 14. aldursári hófst hrina áfalla sem settu mark sitt á líf Gretu allar götur síðan. Systir þeirra Sirrý lést í bílsslysi í Vestur-Þýskalandi, þangað sem hún ferðaðist eftir próf úr Verslunarskólanum, og faðir þeirra lést skyndilega af hjartabilun ári síðar. Í kjölfarið létust föðurforeldrar hennar en þau bjuggu nálægt og voru börnunum náin. Þessi áföll settu mark sitt á fjölskylduna alla og sérstaklega á Gretu, sem var á viðkvæmum aldri þegar þessir harmleikir dundu yfir.
Að loknum gagnfræðaskóla var hún um tíma við nám í Leatherhead á Englandi, dvaldi um skeið í Frakklandi og var við nám í London. Hún stundaði m.a. leiklistarnám við góðan vitnisburð kennara sinna. Greta var vinamörg og á þessum árum reiddi hún sig á vináttu vinkvenna sem hún hefur haldið tryggð við allar götur síðan.
Greta var mikil málakona, talaði lýtarlausa ensku og góða frönsku, en dvöl hennar í Frakklandi hafði mikil áhrif á hana. Hún var sérlega glæsileg kona og lagði mikinn metnað í að vera vel til höfð. Hún neitaði sér frekar um flíkur en að kaupa pólýester og hafði mikið vit og góðan smekk á efnum í fatnað. Þá hafði hún dálæti á fallegum hlutum og naut þess að fylgjast með menningu, sígildri tónlist, listverkasýningum og tísku.
Greta naut þess að vera til og lifði lífinu til fulls en tilfinningalíf hennar var jafnframt sveiflótt og reglulega náði sorgin henni. Alltaf reis hún samt upp og neitaði að láta tilfinningar sínar buga sig. Það var mikil gæfa að vegir Friðgeirs og hennar lágu saman árið 1983 en Greta og Baddi voru samrýmd hjón og studdu hvert annað í yfir 30 ár.
Eiginmaður hennar er Friðgeir Bjarni Skarphéðinsson viðskiptafræðingur og hann á eina dóttur af fyrra sambandi Höllu Rán fædda 18. júní 1980. Halla minnist þess að hafa verið 9 ára þegar hún fyrst dvaldi hjá föður sínum og stjúpmóður og að Greta hafi frá fyrsta degi allt viljað fyrir hana gera. Hún lagði sig fram um að gleðja stjúpdóttur sína, keypti handa henni falleg föt, eldaði uppáhaldsmatinn hennar og lagði mikið á sig til að færa henni sælgæti sem henni þótti gott. Þau hafa átt í gegnum árin samband sem er dýrmætt, þó stjúptengsl sé líka jafnan flókin, og var Greta þegar út af bar iðulega fyrri til að viðurkenna sinn þátt og leita sátta. Halla Rán er gift Hallfreð Ragnari Björgvinssyni og þau eiga þau Anítu Mjöll, fædda 2002, og Loga Snæ, fæddann 2006.
Fjölskylda Badda var Gretu náin, faðir hans Skarphéðinn og hún voru perluvinir, en sá mikli húmoristi lést árið 2006. Þá bjó hún svo vel að eiga tvær tengdamæður, Höllu Oddnýju Jónsdóttur móður Badda og Sigríði Karlsdóttur seinni konu Skarphéðins. Þær tengdamæðurnar voru sammála um að Greta hafi verið einstök þegar kom að því að gleðja ástvini sína og að gjafir hennar hafi verið sannkallað tilhlökkunarefni. Fötin sem hún gaf voru ávallt af bestu gæðum og eins og sniðin á þann sem þeim var ætlað. Hún undirbjó jólin af slíkri kostgæfni að hverri gjöf var gefin kvöldstund til að ganga frá og árið til að velja. Eftirminnilegust voru ljóð hennar og sérvalin orð á handskrifuðum og skreyttum kortum.
Stolltið í lífi Gretu var einkasonurinn Ríkharður Friðgeirsson en hann er fæddur 24. febrúar 1992. Hugur okkar er með þér kæri vinur en þú hefur misst mikið við fráfall móður þinnar. Rikki naut einstakrar alúðar móður sinnar og var sem barn oft svo fínn í tauinu, í frönskum galla með alpahúfu eða í hvítum hönskum, að hann mátti varla leika sér. Hann er þakklátur fyrir móður sína og það uppeldi sem hann fékk. Þau voru náin og Greta gerði sér far um að deila með honum sem mestum tíma og kenna honum að læra að meta sígilda menningu. Eitt sinn er Rikki var ca. 10 ára fékk hann pening til að eyða í sjálfan sig í Fríhöfninni á Leifsstöð og mátti velja sér tölvuleik eða annan glaðning til ferðarinnar. Hann valdi þrígylltan hring handa móður sinni, úr hvítagulli, gulli og rauðagulli, og var sú óeigingjarna gjöf henni sérstaklega kær.
Kærasta Ríkharðs til fjögurra ára er Eva Rós Sverrisdóttir en hún bjó á heimili þeirra hjóna um nokkurt skeið áður en þau hófu búskap. Þeir feðgar eru sammála um að það er margt líkt í fari hennar og Gretu og hún var sérlega ánægð með að tengdadóttir sín hafi lært ballet eins og hún sjálf.
Greta átti á stundum erfitt með tilfinningar sínar og skap en þau sem stóðu henni næst þekktu og kunnu að meta hennar bestu kosti, þá hlið að vilja fólki það vandaðasta í lífinu.
Við veljum okkur ekki hlutskipti í lífinu og áföll spyrja ekki að aðstæðum, það hafið þið reynt kæru feðgar, en við höfum um það að ráða hvernig að við tökumst á við þau. Greta var ykkur kær og þið hafið misst mikið við fráfall hennar en þið standið ekki einir frammi fyrir því verkefni að syrgja og standa á fætur andspænis lífinu. Það ferli er þegar hafið, sú umgjörð sem þið hafið valið þessari kveðjustundu er henni til sóma og bindið hans Rikka er að sjálfsögðu hreint silki í anda Gretu, ekki pólýester eins og búðarmaðurinn lagði til. „Hún stóð með mér í gegnum allt” rifjar sonur hennar upp en hann hafði oft á orði sem barn að hann hafi valið Gretu að móður.
„Hver er mestur í himnaríki” spyrja lærisveinar Jesú og svarið er í senn hvatning til gæsku og ráðgáta. Auðmýkt og bernska haldast í hendur sem lykill að inngöngu inn í leyndardóma himnaríkis, hér á jörðu og í handantilveru okkar. Lífið er sárt og það bera allir þungar byrðar en það er lífsverkefni okkar að lifa með þeim sársauka, lifa líkt og börn. Börn standa óhikað upp þegar þau detta, gráta þegar þau eru meidd en fyrirgefa án fyrirvara og leita jafnan aftur í lífsgleði sína fyrirhafnarlaust.
Sá er mestur sem leggur af og elskar, þrátt fyrir sársauka sinn, og velur ástvinum sínum nýja ilmvatnsflösku að gjöf.
—
8. janúar 2015, klukkan 6.00 til 7.15 að morgni.
Þær koma og fara, alltaf iðandi hendur, iðandi hugar, biðjandi hugar, sífellt hungur í meira, aldrei nóg.
Og tíminn takmarkaður bæði fyrir og eftir allt líf,
líf í smægð, líf í gnægð,
skorti alls.
Öll tárin í tímans ask
finnast aldrei aftur.
Tárin hverfa, gufa upp til Guðs er syrgir þær eða blessar, styrkir, græðir, huggar, styður þær sífellt
á komandi eða deyjandi stundum.
—
Ég hef ég verið beðinn fyrir kveðju frá Sigríði Karlsdóttur og Garðari Hansen, en þau hafa verið búsett í Svíþjóð um árabil. Sömuleiðis vill systir Sigríðar, Steingerður Sigurjónsdóttir, koma á framfæri hluttekningu sinni en hún er búsett á Spáni. Henni er tileinkað kvæðið Steinka, sem lesið var í upphafi athafnar.