Kristján K. Hall f. 2.4.1935 - d. 16.6.2015
Sigurvin @ 12.40 10/7/15
Kenn oss að telja daga vorra
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Áminning sálmaskálsins er í ætt við hina rómversku kveðju memento mori, mundu að þú ert dauðlegur, hvatningu um að grípa daginn og njóta þess stutta tíma sem okkur er afmarkaður í þessu lífi.
Á kveðjustundu verður okkur ljóst samhengi í lífinu sem hætt er við að gleymist í önnum og verkefnum
hversdagsins og forgangsröðun sem verður ljós þegar æviskeiðs er minnst. Það eru ekki hin eiginlegu
afrek lífsins, sem í raun skipta höfuðmáli, heldur þau tengsl sem við myndum í lífinu við fólkið sem
stendur okkur næst. Efnisleg gæði, titlar og starfsferill má sín lítils ef fólkið sem við elskum fær
ekki að njóta þeirra gæða sem við höfum fram að færa og afrek verða að engu ef við eigum ekki ástvini
til að deila þeim með.
Vitnisburður ykkar um látinn ástvin og ættföður er þeirrar gerðar að vart er hægt að hugsa sér
farsælla æviskeið. Lífið er í eðli sínu erfið vegferð og Afi Kiddi upplifði eins og við öll,
erfiðleika, sorgir og heilsubrest á langri ævi en sá vitnisburður að í hugum afkomenda sinna sitji
einungis eftir góðar minningar er dýrmætari en nokkur afrek sem hægt er að vinna í þessu lífi.
Þær gæðastundir sem hann átti með ykkur og sá áhugi sem hann sýndi ykkur er áminning um að nota tímann vel. Áminning um að njóta samverustunda með fólkinu sem við elskum og þannig skapa minningar, sem eru dýrmætasta afrek sem hægt er að vinna og besta veganesti sem hægt er að veita afkomendum sínum.
Kristján Guðmundur Karlsson Hall var fæddur á Blönduósi 2. apríl 1935, þeim hjónum Karli Theódóri Kristjánssyni og Klöru Jakobsdóttur Hall. Systir hans, Jakobína Guðný Hall Iaguessa, var tæplega ári yngri en þau bjuggu á bænum Litla Enni, sama bæ og móðir þeirra er fædd á. Þau fluttu til Reykjavíkur þegar Kristján var 4 ára en í kjölfarið veiktist faðir hans og Klara varð ein fyrirvinna fyrir heimilinu. Karl lést árið 1945 og sökum þess bauðst Kristjáni að fara í fóstur á Galtafell við Laufásveg en hann hélt tryggð við móður sína sem kom honum til manns, þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Kristján lauk barnaskólaprófi frá Laugalækjarskóla og þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands þar sem hann lauk verslunarprófi árið 1953. Verslunarskólaárin voru honum minnisstæð og hann vann fyrir sér í námi með ýmsum hætti, starfaði sem sendill á reiðhjóli og fór vel með það sem hann gat unnið sér inn. Að loknu verslunarprófi öðlaðist hann fjölbreytta starfsreynslu, hann vann um borð í Herðubreið sem sigldi strandsiglingar í kringum Ísland, keyrði leigubifreiðar, starfaði við Vestur-Þýska sendiráðið og vann hjá Álverinu í Straumsvík og á flutningaverkstæði hersins á Keflavíkurflugvelli svo sitthvað sé nefnt. Frá árinu 1987 starfaði hann í bókhaldsdeild Olíverzlunar Íslands og þar til hann lauk störfum. Samstarfsfólk og stjórnendur Olís vilja færa honum þakkir fyrir samfylgdina en hans er minnst fyrir fagmennsku, vandvirkni og einstakt félagslyndi. Hann skrautritaði afmæliskort starfsmanna um árabil og hélt tryggð við starfsmannahópinn eftir að hann lét sjálfur af störfum.
Ástina í lífi sínu hafði hann séð gangandi eftir bankastrætinu en hann nálgaðist Eddu Konráðsdóttur á balli í Iðnó og þaðan var ekki aftur snúið. Þau giftu sig 26. október 1957 og það er óhætt að segja að hann hafi borið konu sína á örmum sér ævina á enda.
,,Ég var bara alltaf elskuð” er vitnisburður Eddu um ástríkan mann sinn, sem í gegnum lífið gleymdi aldrei merkisdegi, orti til konu sinnar ástarljóð og var ævina á enda tíðrætt um hversu falleg og yndisleg kona sín er.
Af þeim samrýmdu hjónum er orðinn mikill ættbogi. Elstur 6 barna var Reynir Karl, fæddur 1958 en hann lést af krabbameini á síðasta ári og hvílir nú hjá föðurforeldrum sínum í Fossvogskirkjugarði. Næst er Íris, fædd 1961 en hún á þau Almar Örn og Aron Örn en hann á jafnframt dótturina Írisi Ósk. Þá er Arnar, fæddur 1966, en hann á þau Jóhann Bjarka, Grétar og Valgeir Þór. Þá Þyri, fædd 1970, hún er gift Eyþóri Gunnarssyni og þau eiga Hauk, Orra, Eddu og Erlu. Næst yngstur er Konráð, fæddur 1973, kona hans er Rakel Jóhannsdóttir, þau eiga Flóka Kristján og Hildi Lóu. Yngstur er Kristján Hall en kona hans er Karen Edda B. Benediktsdóttir.
Þau systkini eru samrýmdur hópur og eiga dýrmætar minningar af því að alast upp hjá föður sínum og móður. Kristján var ekki mikið fyrir að aga börn sín eða banna þeim neitt, það eftirlét hann konu sinni, og sama má segja um barnabörnin sem jafnan máttu allt hjá afa sínum. Kristján átti marga bíla í gegnum tíðina, Sítróen meðal annars, og ameríska með stóru skotti sem börnin komust fyrir í á flatsæng á næturkeyrslu norður í Hörgárdal. Hann var ættrækinn maður og hélt tengslum við fjölskyldu sína fyrir norðan.
Kristján var dugnaðarforkur sem gekk í öll verk og ef hann kunni það ekki sjálfur, fékk hann snarlega mann í að hjálpa sér. Hann var áhugamaður um ótal margt, tónlist og ævisögur, bíltúra og grobbsögur, og hann mátti helst ekki vita af óleystri krossgátu. Hann tók alla tíð virkan þátt í félagsstörfum, var skáti sem ungur maður og átti margar sögur af útilegum og ótrúlegum skíðaferðum og var hrókur alls fagnaðar. Hann var listrænn, málaði og skrifaði skrautskrift, og hafði unun af þýsku, sem hann hafi lært að meta meðal annars í gegnum starf sitt í sendiráðinu. Þá hafði hann óbilandi tækjadellu og var alltaf með á nótunum hvað væri nýtt hverju sinni, vídeótæki, tölvur, snjallsímar og internetið.
Helst hafði hann áhuga á fólkinu sínu og barnabörnin eru þakklát fyrir þá alúð sem hann sýndi þeim. Öll voru þau spurð spjörunum úr þegar þau heimsóttu afa sinn, áttu að greina frá einkunnum og íþróttaafrekum, og alltaf var hann jafn stolltur af barnabörnum sínum. Reikna mátti með jákvæðu Facebook commenti og læk frá afa Kidda þegar krakkarnir deildu reynslu sinni á þeim miðli. Fyrir þau hafði hann fullnumið sígild töfrabrögð, safnaði nefjum þeirra allra og gat tekið fremstu kjúkuna af þumalfingrinum, og átti alltaf eitthvað til að lauma í vasann hjá þeim, sælgæti eða gullpening.
Hvatning sálmaskáldsins er að lifa lífinu til fulls: Kenn oss að telja daga vorra
að vér megum öðlast viturt hjarta, og það gerði Kristján svo sannarlega. Að lifa til fulls er ekki að
öðlast frægð eða frama, slíkt er oft ekki eftirsóknarvert, heldur að njóta hvers dags og grípa hvert
tækifæri til að dýpka samband sitt við þau sem skipta okkur máli í lífinu.
Slík tengsl eru heilög og eru okkur gefin af þeim Guði sem við erum órofatengd í gegnum sköpunarverkið og þráir tengsl við okkur. Veikindi Kristjáns áttu langan aðdraganda og hann var þakklátur fyrir þann tíma sem hann fékk að lifa eftir að sjúkdómsins varð vart í líkama hans fyrir hartnær áratug. Eins og honum var líkt átti hann hvert bein í starfsfólkinu á 11 G, sem svo oft hafði séð hann veikjast og rísa upp aftur, þegar hann náði nægum styrk til að útskrifast og halda áfram að njóta tengsla við fólkið sitt.
Kristján Guðmundur Karlsson Hall lést á Landspítala þann 16. júní síðastliðinn. Að svo komnu mun hann ekki rísa upp úr veikindum sínum í þessu lífi, heldur treystum við upprisu hans í því komanda, hjá þeim Guði og á þeim himneska stað sem við erum komin af.
Hlýjar minningar og heilög tengsl eru sá fjársjóður sem hann erfir ykkur að og verður ykkar veganesti út lífið.
Guð blessi minningu ástvinar ykkar.
Brekkan fín
sólin skín
Ég sakna mikið þín
Þú kannt að skrifa, teikna og reikna
Og kennir mér ýmislegt
Öll þín fögru jólakort
Ég geymi hér hjá mér