sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Þórdís Kalman f. 27.8.1924 - d. 3.7.2015

Sigurvin @ 12.57 10/7

Yfirstandandi ár hefur verið merkisáfangi í íslenskri kvennasögu, þar sem eitt hundrað ár eru nú liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt á Íslandi. Hundrað ár eru í sögu mannkyns sem augnablik en það er óhætt að fullyrða að sú kynslóð sem nú kveður samfélag okkar, södd lífdaga, hefur upplifað meiri framfarir en nokkur önnur kynslóð í sögunni.

Árið 1924, þegar Þórdís Ingibergsdóttir er fædd, voru konur að ryðja sér til rúms í menntun og embættum á Íslandi og áttu eftir að líða mörg ár þar til slíkt var til jafns við karla. Sú kynslóð kvenna sem hún tilheyrir ólst upp við þann veruleika að karlmenn voru nær allsráðandi á vettvangi menningar og fyrirmyndir úr röðum kvenna skiptu því miklu máli.
Áfram…

Kristján K. Hall f. 2.4.1935 - d. 16.6.2015

Sigurvin @ 12.40 10/7

Kenn oss að telja daga vorra
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Áminning sálmaskálsins er í ætt við hina rómversku kveðju memento mori, mundu að þú ert dauðlegur, hvatningu um að grípa daginn og njóta þess stutta tíma sem okkur er afmarkaður í þessu lífi.

Á kveðjustundu verður okkur ljóst samhengi í lífinu sem hætt er við að gleymist í önnum og verkefnum hversdagsins og forgangsröðun sem verður ljós þegar æviskeiðs er minnst. Það eru ekki hin eiginlegu afrek lífsins, sem í raun skipta höfuðmáli, heldur þau tengsl sem við myndum í lífinu við fólkið sem stendur okkur næst. Efnisleg gæði, titlar og starfsferill má sín lítils ef fólkið sem við elskum fær ekki að njóta þeirra gæða sem við höfum fram að færa og afrek verða að engu ef við eigum ekki ástvini til að deila þeim með.
Áfram…

Margrét Magnúsdóttir f. 24.10.1962 - d. 16.5.2015

Sigurvin @ 11.18 29/5

Hverju safnar þú í lífinu?

Þau eru æði mörg sem safna auðæfum, gegn betri vitun, vitandi sem er að þar er enga hamingju að finna. Ef Göggu áskotnaðist fé var það hennar fyrsta verk að deila því með öðrum og gera vel þau sem hún unni. Eldhúsið hennar var fullt af mat og opið fyrir öllum sem vildu borða með henni.

Sumir búa yfir skipulagðri söfnunarþrá og einbeita sér að því að eignast safn fágætra frímerkja, mynta eða muna sem framleiddir hafa verið í afmörkuðu upplagi. Safnakostur Göggu var sundurlausari en svo að hægt væri að telja hann sem áhugamál eða greina með einhverju flokkunarkerfi.

Listsafnara er allstaðar að finna, jafnt einstaklinga sem stofnanir, og verk eftir Göggu eru safnkostur á ekki ómerkari stöðum en Museum of Modern Art og Guggenheim, auk Listasöfnum Íslands og Reykjavíkur. Þörf Göggu lá í að skapa og tjá list en ekki endilega eignast hana sjálf.
Áfram…

Margret Erna Hallgrímsson f. 13.10.1953 - d. 6.2.2015

Sigurvin @ 15.04 24/2

10. janúar 2015, klukkan 11.00

Steinka – nútímakvæði

Það var um sumar er hann og hún,
tólf og ellefu ára,
léku sér á Víkingadrekaþökunum niður í Hafnarstræti,
sátu klofvega yfir skreyttan mæninn og virtu fyrir sér útsýnið.

Og þar sást um víðan völl.
Áfram…

Theodóra Thoroddsen f. 27.10.1929 - d. 10.2.2015

Sigurvin @ 23.41 18/2

Að eiga góða og glaða lund
gulli tel ég betra.
Vertu alla ævistund
aðeins 19 vetra.

Þessar ljóðlínur eiga sannarlega við þegar við minnumst ömmu Dódu, Theodóru Thoroddsen, við endalok lífshlaups hennar. Fram á síðasta dag lifði Theodóra lífi sínu af þrótti sem að hæfa mundi hverju 19 vetra ungmenni. Það er óhætt að segja að Dóda hafi ekki verið hefðbundin amma. Eftirlaunaár hennar fóru í ferðalög og félagsstarf, samhliða hugsjónastarfi sem var henni hugleikið frá blautu barnsbeini.

„Muniði þegar Amma Dóda stóð á haus í sófanum” rifjuðu afkomendur hennar upp, til að sjá lífið með augum barnabarna sinna, þegar hún mótmælti svo mánuðum skipti Kárahnúkavirkjun og reisti níðstöng upp á heiði, fór í ferðalög upp á fjöll í tjaldi sem varla rúmaði hana eina og hafði steinselju bakvið eyrun til að fæla burt mýið, skarst í leikinn þegar Færeyjingar flugust á í Kringlunni og allt þetta með lífsgleðina að vopni. „Bara nógu mikið vesen” var viðkvæði þessarar lífglöðu baráttukonu.
Áfram…

Prédikun flutt í Neskirkju 15. febrúar 2015

Sigurvin @ 15.17 15/2

Guð er til
„[E]ins mikið og ég þráði að trúa þá gat ég það ekki. Mér var það fyrirmunað. Hugmyndin um persónulegan guð gengur gegn minni heilbrigðu skynsemi og upplifun og skilningi á heiminum.”

Þannig lýsir Jón Gnarr niðurstöðu sinnar trúarlegu vegferðar í pistli í Fréttablaði gærdagsins. „Guð er ekki til” er niðurstaða hans, sem þrátt fyrir daglega messusókn, klausturdvöl og lestur á Biblíunni spjaldanna á milli, fær ekki séð að hugmyndin um Guð samrýmist heimsmynd sem byggir á vísindum og heilbrigðri skynsemi. Áfram…

Prédikun flutt í Neskirkju 11. janúar 2015

Sigurvin @ 13.07 11/1

Að vera barnaleg
Djúpt í sálarlífi hverrar manneskju liggur djúpstæður ótti. Við munum fæst hvenær sá ótti kom inn í líf okkar, eða hvað varð til þess að við urðum í fyrsta sinn óttaslegin en við vitum að fyrir tilkomu hans ríkti í okkur fullkomið traust. Í gegnum lífið erum við að glíma við þann ótta og sveiflumst á milli þess að treysta því að við séum elskuð og okkur sé óhætt að lifa og því að skynja okkur ógnað í tilverunni.

Hvítvoðungur í faðmi móður sinnar upplifir sig öruggann, ef allt er eðlilegt, og treystir því að séð verði fyrir öllum sínum þörfum. Slíku trausti fylgir getan til að gefa af sér skilyrðislausan kærleika og í nærveru barns ríkir helgi, sem við flest þekkjum sem höfum umgengist ungabörn.
Áfram…

Prédikun flutt í Neskirkju á Nýársdag 2015

Sigurvin @ 15.38 1/1

Við landamæri nýrra tíma
Áramót eru dýrmæt kaflaskil og tækifæri til að leggja tímaskeið til hliðar, með væntingum sínum og vonbrigðum, sigrum og áföllum, og til að líta fram á veginn.

Fyrirtækjum er skylt samkvæmt lögum að gera við áramót uppgjör og vörutalningu, þar sem staða rekstrarins er metin útfrá mælanlegum viðmiðum hagnaðar eða taps og farið er yfir þær byrgðir sem til eru. Þær vörur sem eru óseljanlegar eða gallaðar eru afskrifaðar og þeim fargað og lagt er mat á virði þeirra vara sem eftir standa. Sumar fara á útsölu og eru seldar án hagnaðar, aðrar halda verðgildi sínu verandi enn í fullu gildi. Að loknu ferlinu er fyrirtækið tilbúið til að taka við nýjum vörum og bæta við úrval sitt. Áfram…

Prédikun flutt í Neskirkju í aftansöng á aðfangadag 2014

Sigurvin @ 02.04 25/12

Það er jafn sárt að vera manneskja nú og fyrir 2.000 árum
Aftansöngur á aðfangadag er öllu jafna fjölsóttasta guðsþjónusta ársins og jafnframt sú sem flestir sofna í. Ekki vegna þess að hún sé svo leiðinleg, þvert á móti er hátíðartón Bjarna Þorsteinssonar yndislegt, jólasálmarnir sannarlega hátíðlegir og prédikunin öllu jafna hugljúf, heldur vegna þess að guðsþjónusta á aðfangadag er kærkomin athvarf á milli jólaundirbúnings og jólahalds.

Það er álag að halda jól og mörg koma til kirkju útkeyrð eftir annir aðventunnar, annir sem flestir telja ljúfsára skyldu við að leggja metnað í gæðastundir með ástvinum sínum, en margir finna líka fyrir sem álagi og kvíðaefni.

Við vitum öll, börn jafnt sem fullorðin, að dýrar gjafir, metnaðarfull matargerð og Georg Jensen jólaóróar, eru ekki þau atriði sem færa okkur jól en þau eru hinsvegar hluti af ástartjáningu fjölskyldunnar og slíka tjáningu skyldi aldrei smætta. Við höldum jól eins veglega og okkur er unnt, vegna þess að gæðastundir með ástvinum skipta okkur máli, sem og sú tilfinning að tilheyra stærra samhengi í tilverunni.
Áfram…

Hugvekja flutt á aðventukvöldi í Neskirkju 17. desember

Sigurvin @ 21.04 19/12

Fjórir kórar og fátækt barn
Kirkjan er einstakur vettvangur. Hér mætast og taka þátt allir aldurs- og heilsufarshópar, fólk af öllum stigum þjóðfélagsins og með ólíkan bakgrunn. Þverskurður samfélagsins.

Neskirkja er fjölsóttur vettvangur og fyrir það erum við þakklát sem hér störfum og þess njótum við öll sem teljum okkur tilheyra samfélagi kirkjunnar. Sé einungis litið til þess fjölda fólks sem tekur með virkum hætti þátt í kórastarfi Neskirkju er þar um fjölmennan hóp ólíkra einstaklinga að ræða, sem gefa vinnu sína til auðga safnaðarlífið.

Í kór Neskirkju syngja 50 manns, í kór eldriborgara 25 manns, stúlknakórinn telur 15 ungar konur og í barnakórinn eru skráð 42 börn. Það er mikill mannauður að baki þessum röddum og kórar kirkjunnar eru fjölmennt og mannbætandi sjálfboðastarf.
Áfram…

« Fyrri færslur  

© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli